Vistvænt eldsneyti

Miðvikudaginn 20. mars 2002, kl. 15:48:41 (6339)

2002-03-20 15:48:41# 127. lþ. 101.10 fundur 585. mál: #A vistvænt eldsneyti# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 101. fundur, 127. lþ.

[15:48]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki hvort mér misheyrðist en mér fannst hv. þm. segja að ég hefði ekki talað neitt um samstarf við stóriðjufyrirtækin en það er einmitt það sem ég sagði í lok máls míns að í þeirri nefnd sem er að hefja störf, þá mun það verða eitt af hlutverkunum að vinna með stóriðjufyrirtækjum að framtíðarmöguleikum þessa máls.

Ég tek undir það með hv. þm. að mikill áhugi er erlendis í sambandi við vetnismálin og gífurleg umfjöllun, ótrúlega mikil umfjöllun í ýmsum tímaritum og þar held ég að fyrirtækið Nýorka eigi mikinn þátt að þetta mál hefur náðst að vera svo vel kynnt sem raun ber vitni. Það skiptir líka máli og ég hef orðið vör við að máli skiptir að stjórnvöld hafa gefið út þá stefnu og þá yfirlýsingu að stefna beri að vetnisvæddu samfélagi. Síðast í morgun átti ég fund með fulltrúum Íslenskrar Nýorku þar sem farið var yfir hugmyndir þeirra og áform á þessu sviði, t.d. hvað varðar skipaflotann sem er gríðarlega spennandi og alveg stórmerkilegt mál að mínu mati og kostar líka mikla peninga.

Við skulum líka hafa það í huga að Evrópusambandið hefur sýnt þessu máli áhuga og það að hingað skyldi koma orkumálanefnd Evrópuþingsins og fá mjög góðar viðtökur á Íslandi, í haust minnir mig að það hafi verið, skiptir líka máli hvað varðar stefnu Evrópusambandsins í þessum málaflokki og þar höfum við þegar fengið digra styrki og mikilvæga og ég er sannfærð um að við eigum enn frekari möguleika á að fá styrk þaðan í sambandi við þá framtíð sem við sjáum þannig fyrir okkur að Ísland eigi þann möguleika, hvort sem það verða tveir eða þrír áratugir, að verða vetnisvætt og þá held ég að við getum borið höfuðið býsna hátt.