Umræðuefni og störf þingsins

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 11:01:58 (6356)

2002-03-21 11:01:58# 127. lþ. 102.93 fundur 419#B umræðuefni og störf þingsins# (um fundarstjórn), SvH
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[11:01]

Sverrir Hermannsson:

Herra forseti. Ég ætlaði einmitt að halda mig eingöngu við fundarstjórnina en hvorki einhverja ruglaða heimasíðu né heldur að finna að því þótt þingmönnum gefist kostur á að ræða pólitísk málefni undir þessum lið sem ætti reyndar að finna annað nafn á því að þetta er ekki um störf þingsins. Eðlilegt er að gefa mönnum í upphafi fundar kost á því að ræða almenn pólitísk mál sem ofarlega eru á baugi.

Ég ætlaði að ræða, með leyfi herra forseta, fyrsta dagskrármálið, um virkjun Jökulsár á Brú. Hæstv. iðn.- og viðskrh. flutti þá yfirlýsingu í gær að væntanleg væri yfirlýsing frá samningsaðilum að þessu máli, álveri í Reyðarfirði, fljótlega eftir helgi. Nú eiga þessi mál algjörlega saman, virkjun Jökulsár á Brú og í Fljótsdal og álver í Reyðarfirði að svo komnu. Þeir tímar kunna að renna upp að Norðmenn verði ekkert þessu máli viðkomandi og nýr kaupandi finnist að þessari miklu orku en meðan virkjun í Fljótsdal hvílir algjörlega á því hvernig fer um samninga við Norðmenn er ekki hægt að skilja þessi mál að. Ég hefði gjarnan viljað fylgja því að þetta frv. yrði að lögum og tel að forseta beri að sýna mér þá tillitssemi að ræða þessi mál saman, hina væntanlegu yfirlýsingu og virkjunina, þegar yfirlýsingin liggur fyrir. Ég tel mig eiga nokkurn veginn þingvarinn rétt á þeirri kröfu, og fer fram á það við virðulegan forseta, aðalforseta sérstaklega, að orðið verði við þessari eindregnu ósk sem ég vil þó ekki kalla kröfu þótt ég telji hins vegar að ég eigi kröfurétt á því.