Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:23:56 (6424)

2002-03-21 16:23:56# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:23]

Svanfríður Jónasdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég þarf eiginlega að setja mig í stellingar til að skilja spurningar hv. þm. Það liggur ljóst fyrir að framkvæmdarleyfi er ekki gefið út fyrr en mati á umhverfisáhrifum er lokið. Það er forsenda fyrir því. Það kemur fram í frv. og í almennum lögum og við vitum þetta öll.

Ég veit líka, herra forseti, að hér er fyrst og fremst verið að afgreiða leyfi í hendurnar á hæstv. iðnrh. sem síðan veitir framkvæmdarleyfið. Enda þó við samþykkjum frv. sem hér liggur fyrir er ekki þar með sagt að framkvæmdir hefjist á morgun. Það vill svo til að það eru önnur lög sem þarf einnig að fara eftir, m.a. lögin um Landsvirkjun. Það þarf að vera til staðar orkukaupandi þannig að ég skil ekki þá fullyrðingu hv. þm. að Samfylkingin sé að kasta einhverjum prinsippum. Það er fjarri öllu lagi. Ég fullyrði að það verður ekki farið í neinar framkvæmdir öðruvísi en svo að lokið verði mati á umhverfisáhrifum ef fara á að lögum.