Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 16:45:05 (6428)

2002-03-21 16:45:05# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[16:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal gefur ekki mikið fyrir fegurð Austurlands og hann gefur ekkert sérstaklega mikið heldur fyrir staðreyndir. Ég frábið mér þegar hann fer að gera okkur upp skoðanir og leggja okkur orð í munn eins og hann gerði gagnvart þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs.

Það sem ég vildi samt vekja athygli á í þessu stutta andsvari er sú pólitíska sannfæring hv. þm. sem stundum hefur borið á góma í þingsölum. Hann segist vera mikill talsmaður markaðsviðskipta og hefur oft haft á orði að markaðurinn sé betra stýrivald en ríkisvald, markaðurinn passi þannig betur upp á peningana og arðsemi en ríki og sveitarfélög gera.

Ég hef ekki sannfæringu fyrir þessu sjálfur. Stundum á það við og stundum ekki. Veldur hver á heldur. Og nú er þetta ríkisvald í höndum Framsfl. og Sjálfstfl. og þar með er hv. þm. Pétur H. Blöndal að hluta til ábyrgur, eins og við reyndar erum öll, í þessu máli. Menn hafa varað við því að ríkið og sveitarfélögin gangist í ábyrgð fyrir þetta áhættuverkefni. Seðlabanki og ýmsir aðrir aðilar hafa varað við því.

Hv. þm. gat hins vegar rétt um þetta í framhjáhlaupi undir lokin og sagði að þetta væri ríkisvæðing. Staðreyndin er sú að talsmenn Landsvirkjunar hafa sagt að ef Landsvirkjun ein ætti að gera þetta á grundvelli markaðar, hún yrði gerð að hlutafélagi og sjálfstæðu fyrirtæki, mundi hún aldrei láta sig dreyma um að gera þetta.

Nú er því komið að því að hv. þm. Pétur H. Blöndal axli sjálfur ábyrgð og hlaupist ekki undan henni eins og hann ætlar að gera í þessu máli.