Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 21. mars 2002, kl. 21:45:07 (6485)

2002-03-21 21:45:07# 127. lþ. 102.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 102. fundur, 127. lþ.

[21:45]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nú vill svo til að ég á sæti í efh.- og viðskn. Alþingis og hlustaði á efnahagssérfræðingana, frá Seðlabanka, Þjóðhagsstofnun og Hagfræðistofnun Háskóla Íslands og ýmsa aðra aðila sem komu að máli við nefndina. Ég fékk ekki betur skilið af þeirra máli en að þeir hefðu miklar efasemdir um að þessi framkvæmd rúmaðist í íslenska hagkerfinu. Ég hefði nú kosið að meiri hluti efh.- og viðskn. þingsins hefði einnig sett fram hinar gagnrýnu raddir sem komu fram í umfjöllun nefndarinnar og að það hefði verið gert í ríkari mæli en gert var. En þetta er stjórnarstefna og stjórnarmeirihlutinn fylgir þessari stefnu þannig í verki. Ég hefði að sjálfsögðu kosið að þingmenn gerðust gagnrýnni þegar eins miklir hagsmunir eru í húfi fyrir þjóðina og raun ber vitni í þessu máli.

En nú vil ég spyrja hv. þm. einnar spurningar: Finnst hv. þm. það ekki vera áhyggjuefni og breytir það engu í forsendum þessa máls að kaupandi skuli ekki vera í hendi, að Norsk Hydro skuli ekki treysta sér til þess að gefa yfirlýsingu núna um að fyrirtækið vilji standa við fyrri ádrátt sem gefinn hafði verið um að koma að þessu verkefni? Ég harma það að sjálfsögðu ekki vegna þess að ég tel þetta stríða gegn hagsmunum Íslendinga. En finnst hv. þm. þetta engu breyta um umræðuna nú? Við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði töldum að réttara væri að skjóta þessu máli á frest og umræðu um það þar til allar forsendur liggja fyrir í málinu.