Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 17:39:53 (6592)

2002-03-25 17:39:53# 127. lþ. 104.3 fundur 629. mál: #A réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum# (EES-reglur, heildarlög) frv. 72/2002, ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[17:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Frv. sem við ræðum nú og hæstv. ráðherra hefur nýlokið við að gera grein fyrir er um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti á fyrirtækjum og er, eins og svo margar tilskipanir sem við setjum í lög okkar eftir að við gerðumst aðilar að Evrópska efnahagssvæðinu, til að tryggja réttarbætur launamanna og starfsfólks. Get ég ekki séð annað við yfirferð frv. en að þetta séu allt saman miklar réttarbætur sem hér er verið að lögfesta í íslensk lög og mun ég að sjálfsögðu styðja það og tel það rétt hjá hæstv. ráðherra að mikilvægt sé að þessi ákvæði öll komi í íslensk lög til að bæta hag þeirra sem starfa hjá þeim fyrirtækjum sem aðilaskipti verða hjá.

Tel ég að frv. ætti að geta farið fljótt og vel í gegnum félmn. þegar það kemur þangað ef menn hafa þá tíma til vegna anna við önnur frv. að skoða það. En eins og hæstv. ráðherra hlýtur að vita eru stór og viðamikil mál í félmn. sem á eftir að vinna og ekki langt eftir af þessu þingi.

En ég tek undir með hæstv. ráðherra að þetta er mikilvægt mál sem við fjöllum um og full ástæða til að komi inn í lög.