Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 17:41:40 (6593)

2002-03-25 17:41:40# 127. lþ. 104.3 fundur 629. mál: #A réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum# (EES-reglur, heildarlög) frv. 72/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[17:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég tek undir að þetta er mál sem þarf að fá greiða leið í gegnum þingið. Eins og hér kom fram er það byggt á tilskipunum úr EES-samstarfinu, Evópusamstarfinu, þar koma aðilar íslensks vinnumarkaðar að máli, fulltrúar ASÍ og BSRB hafa aðkomu að Evrópusambandi verkalýðsfélaga, ETUC, og þaðan er þetta runnið.

Sannleikurinn er sá að Íslendingar geta haft áhrif á Evrópulöggjöfina með ýmsum hætti. Menn hafa iðulega gert einum of mikið úr tilskipunum og lagasetningu sem frá Evrópu kemur í tvennum skilningi. Annars vegar hafa menn sagt að við séum að taka upp 80% af Evrópulöggjöfinni og finnst mikið og sakna þess að við höfum ekki meiri áhrif við smíði þessarar lagagerðar. Staðreyndin er sú að að uppistöðu til eru þær tilskipanir og lög sem vísað er til margvísleg stöðlun á reglum og reglugerðum og ekki nema sjálfsagt mál að eiga aðild að því, enda koma íslenskir embættismenn iðulega að smíði slíks. Annað er runnið upp úr samstarfi aðila á vinnumarkaði og þar höfum við líka þá aðkomu.

Það sem hins vegar skiptir máli þegar kemur að því að skilgreina fullveldi Íslendinga í Evrópustarfinu þá eru það einstakir þættir sem lúta að breytingum á grunngerð samfélags okkar. Þar mundi litlu skipta hvort við ættum aðild að Evrópusambandinu eður ei, reyndar má færa gild rök fyrir því að áhrif okkar mundu stórlega dvína með aðild að Evrópusambandinu, það mundi draga stórlega úr þeim áhrifum.

Ég sagði að í tvennum skilningi gerðu menn iðulega of mikið að mínum dómi úr áhrifunum frá Brussel. Annars vegar þetta og einnig hitt að það sem við höfum gert best á sviði réttinda íslensks launafólks höfum við gert hér sjálf og þar stöndum við Evrópusambandsríkjunum langt framar. Ég vísa t.d. í lífeyrisréttindin og löggjöf sem Íslendingar hafa sett um lífeyrisréttindin. Ég vísa í fæðingarorlof og ég vísa í margvísleg önnur réttindi sem Íslendingar hafa sjálfir staðið að en hafa ekki verið mataðir á frá Brussel.

En ég tek undir orð hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur um að æskilegt er að frv. fari sem fyrst til umsagnar hjá verkalýðshreyfingunni og komi síðan inn í þingið og fái þar vonandi skjóta meðferð.