Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 17:46:48 (6595)

2002-03-25 17:46:48# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[17:46]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. á þskj. 974. Það er 621. mál. Um er að ræða frv. til laga um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Með frv. þessu er stefnt að því að lögfesta ákvæði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu eða gæðastýrt framleiðsluferli á grundvelli gildandi samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var af Bændasamtökum Íslands og landbrh. og fjmrh. fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands 11. mars 2000, skv. 30. gr. laga nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Gildistími samningsins er frá 1. janúar 2001 til 31. desember 2007.

Markmið samningsins eru þessi:

að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda,

að ná fram aukinni hagræðingu í sauðfjárrækt,

að sauðfjárrækt sé í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið,

að halda jafnvægi milli framleiðslu og sölu sauðfjárafurða,

að efla fagmennsku, þekkingu og þróun í sauðfjárrækt.

Það er vilji samningsaðila að ná þessum markmiðum m.a. með því að beina stuðningi að gæðastýrðri framleiðslu, efla rannsóknir, kennslu, leiðbeiningar og þróun greinarinnar og vinna að sátt um landnýtingu. Samningnum fylgdu tvö fylgiskjöl, annars vegar fylgiskjal 1 sem bar yfirskriftina ,,Gæðastýrð sauðfjárrækt, stjórnun, ábyrgð, undirbúningur, framkvæmd, eftirlit og tilgangur gæðastýringar í sauðfjárrækt`` og hins vegar fylgiskjal 2, ,,Viljayfirlýsing vegna mats á landnýtingu vegna gæðastýringarþáttar í samningi um framleiðslu sauðfjárafurða``. Bæði framangreind fylgiskjöl hafa að verulegu leyti verið lögð til grundvallar við gerð þessa frv.

Samningurinn var lögfestur af Alþingi með lögum nr. 88/2000, um breyting á lögum nr. 99/1993, þar með taldar álagsgreiðslur vegna gæðastýrðs framleiðsluferlis.

Samkvæmt 1. mgr. 41. gr. laga nr. 99/1993 eins og ákvæðið hljóðar eftir þær breytingar sem gerðar voru á lögunum með lögum nr. 88/2000, sbr. 10. gr. laganna, eiga allir sauðfjárframleiðendur sem á árunum 2003--2007 uppfylla skilyrði um gæðastýrða framleiðslu rétt til sérstakra álagsgreiðslna úr ríkissjóði. Álagsgreiðslurnar skulu greiddar af uppkaupaálagi, sbr. 4. mgr. 38. gr., og af þeim fjármunum sem beingreiðslur lækka um skv. 1. mgr. 39. gr. laganna. Álagsgreiðslur geta að hámarki numið 100 kr. á hvert kg dilkakjöts.

Við meðferð frv. á Alþingi var gerð sú breyting á frv. að lögfest var sérstakt ákvæði til bráðabirgða, P, þar sem fram kemur að landbrh. skuli leggja fyrir Alþingi frv. til laga um breytingu á IX. kafla laga nr. 99/1993, með nánari ákvæðum um álagsgreiðslur vegna gæðastýringar eigi síðar en 1. febrúar 2002. Það frv. sem hér liggur fyrir er lagt fram í þem tilgangi að uppfylla framangreint ákvæði til bráðabirgða P, í lögum nr. 99/1993.

Samkvæmt samningnum um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var 11. mars 2000 tekur gæðastýringin til eftirtalinna þátta:

1. Landnota. Framleiðendur skulu sýna fram á afnotarétt af landi, þar með talinn afrétt, sem fullnægir beitarþörf alls búpenings viðkomandi bús. Nánar skilgreint í gæðahandbók.

2. Einstaklingsmerkinga. Sauðfé skal merkt og skráð samkvæmt gæðahandbók.

3. Kynbótaskýrsluhalds. Bústofn skal skráður og metinn í viðurkenndu kynbótaskýrsluhaldi.

4. Gæðadagbókar. Hirðing og meðferð bústofns skal skráð samkvæmt gæðahandbók.

5. Búfjáreftirlits. Leggja skal fram vottorð frá búfjáreftirlitsmanni sveitarfélags um fóður, aðbúnað og ástand búfjár í samræmi við ákvæði gæðahandbókar. Lagt skal mat á ytri ásýnd býlisins í samræmi við ákvæði gæðahandbókar.

6. Lyfjaeftirlits. Gera skal grein fyrir kaupum og notkun lyfja á búinu í gæðahandbók.

7. Áburðarnotkunar og uppskeru. Gera skal grein fyrir áburðarnotkun, hvernig hún er ákvörðuð og uppskera skráð af hverri spildu í samræmi við ákvæði gæðahandbókar.

8. Fóðrunar. Gera skal grein fyrir fóðrun og fóðurefnum, (beit, heygjöf, kjarnfóður, annað) í samræmi við ákvæði gæðahandbókar.

Samkvæmt frv. þessu byggist gæðastýrð sauðfjárframleiðsla á notkun framleiðenda á gæðakerfi Bændasamtaka Íslands sem landbrh. staðfestir. Með frv. er lagður grunnur að því að rekjanleiki sauðfjárafurða verði tryggður og hægt verði að votta framleiðsluaðferðir og aðstæður. Ábyrg meðferð lands að mati sérfræðinga Landgræðslu ríkisins er einnig skilyrði fyrir að um geti verið að ræða gæðastýrða framleiðslu. Sérstök ákvæði eru í frv. um þau sjónarmið sem Landgræðsla ríkisins ber að leggja til grundvallar við mat á landnýtingu. Þeir aðilar sem ekki uppfylla kröfur um landnýtingu eiga í langflestum tilfellum kost á að gera sérstaka landbóta- og/eða landnýtingaráætlanir og að uppfylla með því kröfur um landnýtingu. Bændasamtök Íslands og Landgræðsla ríkisins munu staðfesta hvort einstakir framleiðendur uppfylla skilyrði um landnýtingu, gæðahandbók, sauðfjárskýrsluhald og aðbúnað og meðferð búfjár. Landbrh. er einnig heimilt að fela faggiltum aðilum samkvæmt lögum nr. 100/1992, um vog, mál og faggildingu, að hafa eftirlit með einstökum þáttum gæðastýringarinnar. Þá er í frv. gert ráð fyrir að sérstök úrskurðarnefnd skeri úr ef ágreiningur rís um rétt einstakra framleiðenda til álagsgreiðslna vegna gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu.

Gæðakerfi Bændasamtaka Íslands sem sauðfjárframleiðendur munu taka í notkun ef frv. þetta verður að lögum er staðlað kerfi þannig að allir framleiðendur nota sama kerfið.

Þetta gæðastýrða kerfi í sauðfjárrækt byggir á skjalfestingu á þeim aðstæðum og aðferðum sem notaðar eru við framleiðsluna. Tilgangurinn með slíkum skráningum er tvíþættur: Annars vegar hefur skráning slíkra upplýsinga þann tilgang að vera hjálpartæki fyrir framleiðendur til þess að ná betri árangri í sínum rekstri. Stór hluti íslenskra sauðfjárbænda hefur þegar langa reynslu af notkun kynbótaskýrsluhalds og velkjast fáir í vafa um að það hefur skilað gríðarlegum árangri. Það skýrsluhald verður grundvöllurinn í gæðastýringunni og inn í það verður byggð lyfja- og sjúkdómaskráning, en krafan í dag frá markaðnum er að slík notkun á lyfjum við sjúkdómum sem upp koma liggi alveg ljós fyrir. Aðrir skráningarþættir gæðastýringarinnar, svo sem skráning á áburðarnotkun og uppskeru, eru í raun þættir sem þegar í dag eru skráðir á mörgum búum. Allt á þetta að geta nýst til að stórefla leiðbeiningar og faglegt starf í sauðfjárræktinni. Hins vegar eru upplýsingarnar notaðar við markaðssetningu á vörunum, þ.e. skráningin hefur þann tilgang að upplýsa neytandann eða fulltrúa hans um hvernig afurðin er framleidd. Á síðustu árum hafa markaðsaðstæður breyst á alþjóðlegum matvælamarkaði á þann hátt að nær ómögulegt er að markaðssetja vöru á þeim grundvelli að hún sé á einhvern hátt hreinni og betri en önnur án þess að sanna þá fullyrðingu með einhverju slíku skráningarkerfi. Þetta hygg ég að bæði bændur og ekki síður alþingismenn geri sér grein fyrir að menn geri ekkert út í loftið. Sú umræða sem hér var í dag um merkingar á útflutningi sýnir kannski að menn verða að vinna samkvæmt því kerfi þegar um útflutning er að ræða. Gæðavottun og rekjanleiki er því grundvöllur að markaðssetningu íslenska lambakjötsins í framtíðinni að mínu mati og það er auðvitað mat bændanna sem komu að þessari samningsgerð og fulltrúa ríkisins einnig.

Framkvæmdanefnd búvörusamninga mun hafa yfirumsjón með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu hér á landi fyrir hönd landbrh. ef frv. þetta verður að lögum. Nefndin er framkvæmdaraðili samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var 11. mars árið 2000 og samkvæmt einstökum ákvæðum laga nr. 99/1993. Því er eðlilegt að nefndin hafi einnig umsjón með gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu samkvæmt því frv. til laga sem hér liggur fyrir.

Hæstv. forseti. Þá geymir frv. sérstök ákvæði til bráðabirgða sem fela í sér frávik frá öðrum ákvæðum laganna og er einungis ætlað að koma til framkvæmda á árinu 2003, en hér er um að ræða lengri fresti fyrir Bændasamtök Íslands og Landgræðslu ríkisins til að skila gögnum samkvæmt frv. við upphaf gæðastýringar.

Loks má geta þess að samningur um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var 11. mars árið 2000 gildir til 31. desember árið 2003 og er ákvæðum þessa frv. því markaður sami gildistími. Mikil áhersla var lögð á það í þessum samningum af hálfu bændanna að fá langtímasamning til þess að vinna eftir, enda er það mikilvægt þegar menn fara inn í slíkt kerfi eins og hér náðust samningar um.

Mikil vinna er nú að baki við undirbúning að upptöku gæðastýrðrar sauðfjárframleiðslu hér á landi, en hún hófst jafnskjótt og lög nr. 88/2000, um breyting á lögum nr. 99/1993, höfðu tekið gildi. Afrakstur þeirrar vinnu liggur nú þegar fyrir í heilsteyptu gæðakerfi sem samið hefur verið eftir rekstrarfyrirkomulagi og aðstæðum sauðfjárbænda. Kerfið er í vörslu Bændasamtaka Íslands og hefur þegar verið kynnt bændum. Hafa nú 1.630 framleiðendur sótt fyrri dag námskeiðs í notkun þess og fengið afhenta gæðahandbók. Þetta eru um 85% af greiðslumarkshöfum í sauðfé. Áformað er að seinni dagur námskeiðsins verði nú í vor áður en sauðburður hefst.

[18:00]

Samhliða þessari vinnu hafa bændur í Norður-Þing\-eyjar\-sýslu tekið þátt í tilraun þar sem hið gæðastýrða framleiðsluferli er prófað. Niðurstöður þeirrar tilraunar lofa góðu um framhaldið. Ég hef haft samband við nokkra þeirra bænda sem hafa unnið eftir þessu kerfi. Auðvitað hefur það verið einfaldað á reynslutímanum. Þeir telja að kerfið sé ekki flókið heldur auðvelt í allri framkvæmd.

Áhersla á vottuð gæðastýringarkerfi í matvælaiðnaði hefur aukist mjög á síðustu árum í kjölfar aukinna krafna neytenda um matvælaöryggi og vegna meiri fjarlægðar milli framleiðenda og neytenda. Flest lönd sem við miðum okkur við eru að taka upp einhvers konar gæðastýringu í landbúnaði. Norðurlöndin eru komin þó nokkuð áleiðis. Það má leiða að því líkur að allur búskapur framtíðarinnar muni nota gæðastýringarkerfi sem tekur til alls framleiðsluferilsins, nýtingar, aðfanga og nýtingar náttúrunnar. Krafan um þetta hefur orðið háværari á síðustu missirum í kjölfar áfalla tengdum kúariðu, gin- og klaufaveiki og ekki síst vegna sjúkdóma sem gengið geta milli manna og dýra.

Á fylgiskjali með frv. þessu er að finna kostnaðarumsögn fjmrn. um frv. og læt ég nægja að vísa til þess. Ég vil að öðru leyti vísa til greinargerðar með frv. og athugasemda með frv.

Hæstv. forseti. Frv. þetta er lagt fram í þeim tilgangi að lögfesta ákvæði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu í samræmi við ákvæði samnings um framleiðslu sauðfjárafurða sem undirritaður var af Bændasamtökum Íslands og landbrh. og fjmrh. fyrir hönd ríkissjóðs 11. mars árið 2000. Hér er um að ræða stórt skref fram á við fyrir þessa atvinnugrein og bind ég vonir við að þetta muni styrkja sauðfjárrækt í landinu, efla hag sauðfjárbænda og stuðla að betri og vandaðri afurðum fyrir neytendur.

Ég vek einnig athygli á því að vegna nýjunga í þessum samningi var það sameiginlegt álit viðsemjenda að samningurinn þyrfti í almenna atkvæðagreiðslu meðal bænda. Skoðun þess sem hér stendur var að annað væri ófært en að bændur þessa lands fengju að segja álit sitt á þessum samningi og greiða um hann atkvæði í almennri atkvæðagreiðslu. Það er í fyrsta sinn sem slíkt er gert með samningi um framleiðslu sauðfjárafurða. Ég minnist þess að þeir samningar sem ég hef orðið vitni að hafa valdið mjög mikilli gagnrýni meðal bænda, þ.e. á að fá ekki að segja álit sitt í almennri atkvæðagreiðslu.

Þessi samningur var samþykktur í nefndri atkvæðagreiðslu með 2/3 hluta atkvæða, þ.e. 66% bænda samþykktu samninginn og vildu gera hann að sínum. Þannig greiddi afdráttarlaus meiri hluti bænda þessari leið atkvæði sitt og vildi fara þessa leið inn í nýja öld. Heildarsamtök bænda, bæði Bændasamtök Íslands og Landssamtök sauðfjárbænda, hafa á öllum stigum stutt þetta mál og styðja frv. eins og það lítur út í dag.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.