Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 20:41:03 (6620)

2002-03-25 20:41:03# 127. lþ. 104.4 fundur 621. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (gæðastýrð sauðfjárframleiðsla) frv. 101/2002, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[20:41]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þeir sem gerðu þennan samning hugsuðu kannski líkt og hv. þm. og settu fyrirvara í samninginn um að þeir ættu kost á því að endurskoða samninginn. Það eru endurskoðunarákvæði opin 2003 eða eftir eitt ár. Þá munu bændurnir aftur koma að þessu, gera athugasemdir og endurskoða samninginn þannig að það er allt inni. Þess vegna sé ég ekki ástæðu til að stöðva þennan samning á þessu stigi.

Ég get auðvitað tekið undir margt af þeirri landbúnaðarþekkingu sem hv. þm. flytur hér. Hann kann þessi mál afar vel. Það er hárrétt sem hann segir að einn og einn bóndi sem heldur engar skýrslur og hefur allt í kollinum er góður. En ég var að segja frá því að nú hafa þeir verið settir í tvær körfur annars vegar sá sem heldur skýrslurnar og hinir, og meðaltalið segir að það sé mikill munur á afkomu þessara manna og afurðum eftir búum eins og ég sagði áðan, þ.e. hálfu lambi meira á hverja á og 1 kg þyngri meðalvigt eigi að síður. Ég vek athygli á þessu. Það er kannski eðlilegt að ríkið, sem leggur til þetta mikla fjármagn --- eins og ég fer yfir í lok umræðunnar enn frekar --- inn í þennan samning, vilji sjá þróun og kapp innan þessarar stéttar. Það var skemmtilegt fannst mér sem krakka og þátttakanda í landbúnaði þegar menn héldu skýrslur og skírðu ærnar sínar. Ég vil segja fyrir mig að Hestsbúið sem hefur verið í forustusveit hér á landi og leiðarljós sauðfjárbænda, hefur verið í skýrsluhaldi. Þar voru ærnar skírðar. Þar var fylgst með öllum hlutum. Þar var ræktunarstarfið mikið. Þetta er háskóli í landbúnaði sem hefur verið leiðarljós um leið og margir bændur hafa orðið miklir leiðtogar hver í sinni sveit. Það er sannarlega gaman að koma þar sem bændurnir deila um hrútana sína, gimbrarnar sínar, hafa keppnisskap og vilja skara fram úr. Og það er ekkert óeðlilegt að bónusinn sé smávegis peningar, hæstv. forseti, af ríkisins fé.