Niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar

Mánudaginn 25. mars 2002, kl. 23:02:10 (6668)

2002-03-25 23:02:10# 127. lþ. 104.7 fundur 640. mál: #A niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar# (heildarlög) frv. 78/2002, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 127. lþ.

[23:02]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar sem er 640. mál þingsins. Þó svo að heiti frv. sé um niðurgreiðslu húshitunar nær frv. til fleiri þátta eins og styrkveitinga til nýrra hitaveitna og eftirlits með framkvæmd laga þessara.

Verulegum fjármunum ríkisins hefur verið varið til ýmissa aðgerða til að minnka orkukostnað notenda á þeim svæðum á landinu þar sem hann hefur verið mestur til að tryggja öllum landsmönnum aðgang að orku á viðráðanlegu verði. Ekki hefur legið fyrir löggjöf sem mælir skýrt fyrir um hvernig þeim fjármunum skuli ráðstafað eða hvernig eftirliti með ráðstöfun fjárins skuli háttað. Er frv. ætlað að bæta úr þessu og marka með skýrum hætti í lögum þá framkvæmd sem verið hefur á niðurgreiðslum og úthlutun styrkja vegna nýrra hitaveitna eða stækkunar eldri veitna.

Frv. er samið af sérstakri nefnd er ég skipaði í ágúst 2001, en henni var falið að gera drög að lagafrv. um niðurgreiðslur á rafmagni til hitunar íbúðarhúsnæðis. Í nefndinni sátu fulltrúar frá iðnrn., Orkustofnun, Landsvirkjun, Rarik, Samorku og Samtökum sveitarfélaga á köldum svæðum. Nefndin lauk störfum í febrúar sl.

Aðgerðir ríkisins á þessu sviði undanfarin ár og áratugi hafa verið margvíslegar og má flokka niður í eftirfarandi þætti:

Í fyrsta lagi. Niðurgreiðslur á rafmagni til hitunar íbúðarhúsa og vatni hjá kyntum hitaveitum.

Í öðru lagi. Niðurgreiðslur á olíu til hitunar íbúðarhúsa.

Í þriðja lagi. Framlag til nýrra hitaveitna sem nýta munu jarðvarma og leysa af hólmi rafhitun.

Niðurgreiðslur á rafmagni og vatni hjá kyntum hitaveitum hafa verið stærsti kostnaðarliðurinn af þeim þáttum sem frv. fjallar um.

Raforka til hitunar íbúðarhúsa hefur í tæpa tvo áratugi verið greidd niður af ríkinu og orkufyrirtækjunum, en þær hófust á árinu 1982 og frá þeim tíma og til loka ársins 2000 hafa tæpir 9 milljarðar kr. verið lagðir í slíkar niðurgreiðslur á fjárlögum. Endurgreiðsla virðisaukaskatts af hitun íbúðarhúsa er enn inni í þessum tölum. Á fjárlögum ársins 2002 eru áætlaðar 853 millj. kr. úr ríkissjóði til þessara niðurgreiðslna. Afsláttur Landsvirkjunar er um 100 millj. kr. og afsláttur Orkubús Vestfjarða og Rafmagnsveitna ríkisins er um 20 millj. kr. Alls gætu því niðurgreiðslur á rafhitun til húshitunar og afsláttur orkufyrirtækja numið tæpum 1 milljarði kr. á árinu 2002.

Iðnrh. hefur hingað til falið dreifiveitum raforku og kyntum hitaveitum framkvæmd niðurgreiðslna á orku til húshitunar. Veiturnar hafa dregið niðurgreiðsluna frá reikningi notenda. Dreifiveiturnar hafa síðan sent ríkissjóði reikning fyrir veittum niðurgreiðslum á veitusvæði.

Með frv. verður framkvæmd niðurgreiðslna óbreytt frá því sem verið hefur og ný raforkulög munu ekki hafa í för með sér þörf fyrir breytingar á þessum lögum.

Með frv. er lagt til að olía til húshitunar verði greidd niður hjá þeim notendum sem ekki eiga kost á að fá rafhitun eða hitaveitu og verða því að notast við olíu til húshitunar. Þegar verð á olíu hækkaði í kjölfar olíukreppu á 8. áratug síðustu aldar var ákveðið að greiða niður olíu til hitunar íbúðarhúsa. Greiddir voru olíustyrkir eftir fjölda íbúa sem höfðu fasta búsetu í íbúð, en þegar olíuverð lækkaði að nýju árið 1986 var hætt að greiða þessa styrki. Þá áttu flestir landsmenn kost á að kaupa raforku til hitunar íbúðarhúsa eða að tengjast hitaveitum. Þó eru nokkur íbúðarhús sem ekki eiga kost á að nýta raforku til hitunar húsnæðis og þegar olíuverð hækkar eins og gerðist á árinu 1999 kemur það illa við þau heimili. Ekki eru til nákvæmar tölur um fjölda þeirra heimila, en áætlað hefur verið að þau séu um 60 og er þar af um helmingur í Grímsey.

Þá eru með frv. sett lagaákvæði um úthlutun styrkja til nýrra hitaveitna eða stækkunar eldri veitna. Haustið 1999 samþykkti ríkisstjórnin tillögur iðnrh. að reglum um úthlutun styrkja til lagningar nýrra hitaveitna á svæðum sem njóta niðurgreiðslu á rafmagni til húshitunar. Reglurnar eru í samræmi við þá stefnu sem mörkuð var með samþykkt þingsályktunar um stefnu í byggðamálum 1999--2001. Í byggðaáætlun var mörkuð sú stefna að nýta fé sem ætlað er til niðurgreiðslu á rafhitun til íbúðarhúsnæðis til þess að lækka stofnkostnað nýrra hitaveitna og stuðla með þeim hætti að aukinni notkun á jarðvarma til húshitunar. Frá því að úthlutun styrkja til hitaveitna hófst haustið 1999 hafa sjö veitur fengið slíka styrki samtals að fjárhæð rúmlega 216 millj. kr. Af þessum hitaveitum eru fjórar nýjar, en þrjár hafa fengið styrki vegna stækkunar á dreifikerfi.

Þó svo að meginefni frv. taki aðeins til núgildandi reglna um niðurgreiðslur og styrki eru þar þó nokkrar breytingar lagðar til. Þær eru helstar þessar:

1. Mögulegt verður að greiða niður hitun með olíu hjá þeim sem ekki eiga kost á annarri hitun.

2. Eigendur smávirkjana eiga kost á niðurgreiðslum á rafhitun og verður notkunin þá að vera mæld.

3. Ef notuð er varmadæla við hitun íbúðar flokkast orkan inn á hana sem raforka til hitunar og nýtur niðurgreiðslna en þessi notkun hefur ekki verið niðurgreidd. Þak er lægra fyrir þessa notkun en beina rafhitun.

4. Hitaveitur sem ekki eru opinberar veitur geta fengið styrk til stofnunar nýrrar veitu eða stækkunar eldri veitu.

5. Komið er á opinberu eftirliti með framkvæmd þessara aðgerða.

6. Settar eru skýrar reglur um í hvaða tilvikum kyntar hitaveitur skuli njóta niðurgreiðslna.

Í meginatriðum má segja að frv. sé staðfesting á þeirri pólitísku stefnumörkun síðustu tvo áratugi að stuðla að aukinni rafhitun og hitaveituvæðingu landsins sem leitt hefur til þess að hinir hreinu og endurnýjanlegu orkugjafar hita yfir 99% af húsnæði landsmanna. Jafnframt eru í frv. lagðar til ákveðnar lagfæringar og leiðréttingar, m.a. til að gera fleirum kleift að njóta hitaveitu en verið hefur og loks er með frv. komið á markvissu eftirliti með framkvæmd laga þessara, en að mati þeirra er best þekkja til hefur þar skort nokkuð á.

Hæstv. forseti. Ég mælist til þess að að lokinni umræðu verði málinu vísað til 2. umr. og hv. iðnn.