Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 10:36:37 (6792)

2002-04-03 10:36:37# 127. lþ. 106.91 fundur 442#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[10:36]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Hvert er aðalatriði þessa máls? Í lok febrúar er mér tjáð um erfiðleika Norsk Hydro í sambandi við það að halda tímaáætlun. Ég spyr að sjálfsögðu: Hefur verið tekin ákvörðun? Svarið er nei. Ekki hefur verið tekin ákvörðun. Ég bið um samtal við forstjóra Norsk Hydro.

Á þessu stigi taldi ég ekki líklegt að fyrirtækið héldi því til streitu að standa ekki við áætlanir, í fyrsta lagi vegna þess að ástæðan var sögð erfiðleikar fyrirtækisins vegna fjárfestinga í fyrirtækinu VAW í Þýskalandi og sl. haust var mér tjáð að þær fjárfestingar mundu ekki hafa áhrif á fjárfestingar á Íslandi, og í öðru lagi vegna þess að þriðji aðili hafði fengist að verkefninu á skömmum tíma og sýndi mikinn áhuga.

Í svörum Norsk Hydro til íslenskra fjölmiðla kemur fram hvað eftir annað að engin ákvörðun hafi verið tekin um að breyta út af tímaáætlun og síðast þann 18. mars er haft eftir Thomasi Knutzen, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, og Tor Steinum, starfsmanni fyrirtækisins --- ég ítreka 18. mars --- að ekki hafi nein ákvörðun verið tekin um að breyta þeirri tímaáætlun sem unnið sé eftir.

Hinn 19. mars á ég hins vegar samtal við forstjóra fyrirtækisins, Eyvind Reiten. Þá varð mér ljóst að fyrirtækið mundi ekki standa við tímaáætlun, og var full alvara með það. Við komum okkur saman um það, ég og forstjórinn, að við mundum vinna að sameiginlegri yfirlýsingu, a.m.k. reyna það. Ég greindi þinginu frá þessu strax daginn eftir, í upphafi fundar þann 20. mars, að unnið yrði að yfirlýsingu og ég mundi greina þinginu frá þeirri yfirlýsingu strax og hún yrði tilbúin. Það geri ég 22. mars þegar hún kemur nánast volg inn á borð þingmanna, lauslega yfirfærð á íslensku. Þetta er aðalatriði málsins.