Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 14:09:28 (6809)

2002-04-03 14:09:28# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[14:09]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á viðkvæmni hv. þm. Ég var aðeins með almennar bollaleggingar um það hvort þetta væri rétt meðferð á málfrelsinu að fara svona með það. Ég tók hins vegar fram að málfrelsið væri afar mikilvægt og þess vegna væri mikilvægt að við bærum virðingu fyrir málfrelsinu.

Við verðum líka að bera virðingu fyrir öðrum þingmönnum í þessum sal en bara okkur sjálfum sem stöndum í ræðustól.

Það er vissulega þannig að oft og tíðum þurfa menn langt mál til að fjalla um hin ýmsu málefni. Ég segi þess vegna að við hljótum að velta því fyrir okkur reglulega hvernig við förum best með málfrelsið. En það getur vel verið að viðkvæmni hv. þm. snúi að því sem hann sagði: Þingmaður í stjórnarandstöðu, ef stjórnarandstöðu skyldi kalla. Það er nákvæmlega þetta sem ég var líka að fjalla um áðan. Það er þessi mismunur á því hvernig við lítum á stjórnarandstöðu. Það er augljóst mál að sumir hv. þingmenn líta þannig á stjórnarandstöðu að það beri helst að vera á móti öllu sem stjórninni er merkt. Málið er því miður eða sem betur fer ekki þannig að allt sé gott eða illt sem frá stjórninni kemur.