Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Miðvikudaginn 03. apríl 2002, kl. 14:14:09 (6813)

2002-04-03 14:14:09# 127. lþ. 106.1 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, EMS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Einar Már Sigurðarson (andsvar):

Herra forseti. Ég fór ekki ítarlega yfir tillöguna, enda verður hún vonandi til umræðu fyrr en seinna og ég vænti þess að hv. þm. Halldór Blöndal beiti áhrifum sínum til að hún geti komið til umfjöllunar sem allra fyrst vegna þess að tillagan er mjög mikilvæg eins og ég fór örfáum orðum um áðan. Hins vegar er hún ekki þannig úr garði gerð að þar séu t.d. öll mörk endanleg o.s.frv.

Hér er verið að hreyfa mjög stóru og miklu máli sem er að sjálfsögðu ekki endanlega útfært í till. til þál. vegna þess að fyrsta setningin hljóðar þannig að það eigi að fela umhvrh. að leggja eigi undir þjóðgarð víðerni norðan og norðaustan Vatnajökuls. Síðan er talið ýmislegt upp. Það eru að sjálfsögðu ekki endanlegar línur.

Síðan get ég frætt hv. þm. um að ég held að flutningsmenn hafi ekki verið vísindalega raðaðir inn á tillöguna heldur er meiri hluti þingflokksins sem stendur á bak við hana og ég veit ekki betur en mjög víðtækur stuðningur sé í þingflokknum, hv. þm., við þá tillögu.