Upplýsingagjöf um álversframkvæmdir

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 10:46:32 (6884)

2002-04-04 10:46:32# 127. lþ. 109.92 fundur 454#B upplýsingagjöf um álversframkvæmdir# (aths. um störf þingsins), ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 127. lþ.

[10:46]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Vegna ummæla hv. þm. Bryndísar Hlöðversdóttur um að hún saknaði mín í ræðustóli út af þessu máli, þá vil ég upplýsa að það náðist að halda þingflokksfund í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði fyrir þingfund. Við höfðum hálftíma til þess þannig að allir eru upplýstir um málið.

Fram kom hjá hv. þingflokksformanni Ögmundi Jónassyni að við erum ánægð með þá niðurstöðu mála að kortleggja eigi ferli málsins og setja niður dagsetningu og búa til eins konar skýrslu. Það undirstrikaði hv. þm. Ögmundur Jónasson.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson gat þess einnig að tillaga er frá Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði sem ég flyt í forsn. um að fyrirbyggja að svona hlutir endurtaki sig og við getum verið öruggari framvegis með það að þeir sem koma fyrir þingnefndir segi okkur allt það sem þarf um framgang mála sem til umfjöllunar eru í þinginu hverju sinni. Þetta er staða málsins og að engu leyti óeðlilegt, hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, að þingflokksformaður viðkomandi flokks eftir þingflokksfund komi fram og skýri afstöðu flokksins til mála.