Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Fimmtudaginn 04. apríl 2002, kl. 15:27:47 (6955)

2002-04-04 15:27:47# 127. lþ. 110.2 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, Frsm. minni hluta ÁSJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 127. lþ.

[15:27]

Frsm. minni hluta iðnn. (Árni Steinar Jóhannsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjálmar Árnason gerir sig sjálfur sekan um að færa hluti í afkáralegan búning. Hver er að því? Ef hv. þm. hefur lesið nál. mitt sér hann að það eru fylgiskjöl með álitinu og það sjálft grundvallast ekki bara á þeim fundi sem var í morgun. Fylgiskjölin eru bókun í forsn., tillaga að ályktun forsn. og ályktun þingflokksins. Tillagan og bókunin voru settar fram í forsn. sl. mánudag og er þar byggt á stöðu málsins eins og það var þá. Þessi málatilbúnaður er ekkert grundvallaður, eins og á honum sést, á fundinum í morgun. Það er verið að taka almennt á málunum. Tillagan um þessa sjö manna nefnd til að skoða hvernig við högum okkur í þessum málum er orðin til vegna misvísandi upplýsinga sem komu fram um málið alveg fram á síðustu daga. Þannig er málið vaxið. Ég hef aldrei sagt að ég væri að væna gesti okkar á fundi iðnn. í morgun um lygi. Ég hef aldrei sagt það. Ég hef aldrei gert það. (HjÁ: Þetta er bara lygi.) Nei, og hef ekki látið að því liggja. Ég fer mjög fínum orðum einmitt um það hvernig þeir gáfu okkur upplýsingar í morgun og dreg síðan fram þær hugmyndir sem við höfum um það hvernig má lagfæra þessi mál. Það er mergurinn málsins og ég vil að það komi fram hér.

Á þessum meiði hangir gagnrýnin og framsetning um að vilja ekki taka við trúnaðarupplýsingum sem maður má ekki síðan afhenda eða segja sínum nánustu félögum í þingflokki sem er náttúrlega afleit staða og hangir líka á þeirri hugmyndasmíð hvernig í þessi mál skuli fara.