Kosningar til sveitarstjórna

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 13:36:20 (7000)

2002-04-05 13:36:20# 127. lþ. 111.1 fundur 550. mál: #A kosningar til sveitarstjórna# (erlendir ríkisborgarar o.fl.) frv. 27/2002, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 127. lþ.

[13:36]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég hvet menn eindregið til að styðja þessa brtt. Hún er efnislega mjög sambærileg við þá sem því miður var felld hér áðan með þeirri breytingu þó að það tæki aðra ríkisborgara en norræna þrjú ár en ekki tvö að öðlast hér fullan rétt. Það er einmitt mjög mikilvægt að menn átti sig á því sem greinilega hefur ekki komist til skila, sennilega af því að menn eru hysknir við störf sín og lesa ekki þingskjöl áður en þeir greiða atkvæði, að þessar tillögur báðar, sú sem felld var áðan og sú sem hér er til atkvæða, gera einmitt greinarmun á norrænum borgurum og öðrum. Og það hélt ég að væri í anda þeirrar hugsunar okkar Íslendinga að lyfta norrænni samvinnu í efsta sæti og setja hana t.d. skör ofar en þátttöku í evrópskri samvinnu að öðru leyti. Þetta hefur farið fram hjá hv. 1. þm. Norðurl. e. af einhverjum ástæðum og ég býð honum upp á námskeið í þessum efnum til að hann komi betur undirbúinn til atkvæðagreiðslna í framtíðinni.