Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Föstudaginn 05. apríl 2002, kl. 16:44:58 (7035)

2002-04-05 16:44:58# 127. lþ. 113.3 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 127. lþ.

[16:44]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Já, herra forseti. Hér gætum við þess vegna verið að hefja umræðuna að nýju um þjóðhagslega arðsemi af þessu verkefni sem ég hef fært rök fyrir að er ekki fyrir hendi að mínum dómi. Við skulum ekki fara nánar út í þá sálma. En ég beindi einmitt spurningu til hv. þm. um tilkostnað Landsvirkjunar og hann staðhæfir að hann sé 2--3 milljarðar kr. Og hann staðhæfir að engir hönnunarsamningar hafi verið gerðir. Nú er að ljúka umræðu um þetta mál. En ég mun grafast fyrir um sannleiksgildi þessa. Getur verið að boðin hafi verið út verk, þar á meðal jarðgöng, án þess að þau hafi verið hönnuð, án þess að verkkaupandinn viti hvað hann er að bjóða í? Getur það verið? Ég mun grafast fyrir um þetta.

Hér hefur það verið staðhæft af hálfu formanns iðnn. að engir hönnunarsamningar hafi verið gerðir. Þetta verður kannað. (Gripið fram í.) Þetta verður kannað.