Tollalög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 11:58:21 (7080)

2002-04-08 11:58:21# 127. lþ. 114.21 fundur 576. mál: #A tollalög# (tollar á grænmeti) frv. 46/2002, KVM
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[11:58]

Karl V. Matthíasson:

Herra forseti. Við erum að ræða hér frv. til laga um breyting á tollalögum. Til að útskýra málið vil ég segja að nokkurs misskinings virðist gæta hér í þingsölum. Þetta mál fjallar ekki um niðurgreiðslur á grænmeti eða beingreiðslur til bænda. Það frv. liggur fyrir í þinginu núna. Það er allt annað mál en það sem verið er að fjalla um núna. Frv. um beingreiðslurnar hefur náttúrlega komist í fréttirnar vegna þess að sölusamtök eða söluaðilar garðyrkjubænda eru farnir að gera tilkall til fjármuna sem ekki er búið að ákveða endanlega hvert fari, og um það allt saman verður náttúrlega rætt í landbn. á næstu dögum, þ.e. þá hlið málsins. Auðvitað er mjög alvarlegt, herra forseti, þegar gefin eru fyrirheit um að efla eigi ákveðna atvinnugrein ef svo sölusamtök viðkomandi greinar ætla sér strax að ná í eitthvað af því fé. Þetta verður að segjast fyrst hv. þm. Jón Bjarnason er að vekja máls á þessu hér. Hér erum við að ræða annars vegar um frv. til laga um breyting á tollalögum, en hitt er allt annað frv.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa úr athugasemdunum með frv. til að skýra hvers vegna ég skrifa undir þetta meirihlutaálit:

[12:00]

,,Núverandi lagarammi er með þeim hætti að verð- og/eða magntollur getur verið hæstur eins og hann er tilgreindur í tollskrá en ráðherra er heimilt að hreyfa við tollinum í 25% þrepum, þ.e. unnt er að lækka hann eða hækka þannig að hann nemi 0, 25, 50 eða 75% af þeim verð- og/eða magntolli sem tilgreindur er í tollskrá. Samkvæmt þeirri breytingu sem lögð er til í frumvarpi þessu getur tollurinn verið hæstur eins og hann er tilgreindur í tollskrá en heimilt er að lækka hann eða hækka í minni þrepum en áður.``

Um það snýst málið. Verið er að veita heimildir til þess að lækka þau þrep. Í staðinn fyrir t.d. að setja 25% toll er hægt að setja 10%. Verið er að veita ráðherranum heimild ef aðstæður eru til þess og hann telur það heppilegt til að veita garðyrkjubændum aðhald eða koma fram með ákveðið mótvægi ef verið er að dæla inn á markaðinn eða inn kemur óeðlilega mikið magn af grænmeti á markaðinn frá útlöndum. Þetta er ákveðið styrktarákvæði eins og er í flestum öðrum löndum þar sem verið er að tala um tolla til verndar framleiðslu, innlendri framleiðslu. Ég tel því, herra forseti, að hér gæti nokkurs misskilnings í umræðunni. Ekki er verið að ræða um beingreiðslumálin í þessu frv. Þau koma síðar og þau verða til umfjöllunar hjá landbn. og hún mun bregðast við þeim aðstæðum og þeim fréttum sem okkur berast af því sem er að gerast í garðyrkjugeiranum. Ég held því, herra forseti, að ekki þurfi að blanda þessum málum saman. Þetta er jákvætt mál, þetta er jákvætt fyrir neytendur og þetta er jákvætt fyrir bændur. Þess vegna skrifa alþingismenn Samfylkingarinnar undir frv. og greiða því atkvæði.