Búnaðargjald

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:11:57 (7085)

2002-04-08 12:11:57# 127. lþ. 114.22 fundur 600. mál: #A búnaðargjald# (gjaldstofn) frv. 59/2002, ÁMöl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:11]

Ásta Möller (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur varðandi búnaðargjaldið og bendi á, eins og hefur reyndar komið fram í umræðunni, að það eru fleiri samtök sem fá gjöld sem eru ákveðin með lögum. Það kom hérna fram m.a. að Samtök iðnaðarins hafa í gegnum lög fengið í sinn hlut iðnaðarmálagjaldið, mig minnir að það heiti iðnaðarmálagjald, sem ég spurði m.a. eftir í fyrirspurn til hæstv. forsrh. í byrjun þings og hef fengið svar þar um. Þar kemur m.a. fram að Samtök iðnaðarins fá tugi milljóna, hundruð milljóna á síðustu árum í gegnum iðnaðarmálagjald og það gjald er innheimt ekki eingöngu af þeim sem eru aðilar að Samtökum iðnaðarins heldur einnig af fyrirtækjum sem eru utan Samtaka iðnaðarins. Það er eins og stéttarfélag ákveðinnar stéttar fari að innheimta félagsgjöld frá öðrum utan stéttarfélagsins.

Það er því rík ástæða til að taka þessi lög til endurskoðunar þar sem innheimt eru félagsgjöld til ákveðinna samtaka gegnum ríkið. Ég vildi með andsvari mínu taka undir með hv. þm. varðandi þetta atriði.