Hollustuhættir og mengunarvarnir

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 12:27:55 (7092)

2002-04-08 12:27:55# 127. lþ. 114.24 fundur 638. mál: #A hollustuhættir og mengunarvarnir# (starfsleyfi, hollustuvernd o.fl.) frv. 98/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[12:27]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er hægt að taka undir með hv. síðasta ræðumanni að þetta mál er heldur aftarlega á merinni í þingstörfunum. Menn líta kannski svo á að hér sé ekki um tímamótastórmál að ræða en þó, þarna eru hlutir sem eðlilegt er að verði skoðaðir vandlega. Eins og stundum vill verða hjá okkur finnst mér þetta frv. líka bera viss merki bútasaums í stjórnsýslunni, mál skoðuð hólfað eftir því sem heyrir undir einstök ráðuneyti en minna um samræmda stefnu.

Hér kemur t.d. við sögu hlutverk það sem héraðslæknar hafa haft með höndum í umdæmum sínum á undanförnum árum og þess mun sjá stað í lögum víðar að sjálfsögðu ef sú ákvörðun gengur hér í gegn að leggja þau embætti niður. Það er að vísu ekki orðið að lögum enn en framkvæmdarvaldið vinnur greinilega í trausti þess að Alþingi geri það sem fyrir það er lagt og afgreiði frv. eins og þau koma frá ráðuneytunum. Það er greinilega ekki gert ráð fyrir þeim möguleika t.d. að Alþingi ákveði að hætta við þetta því að umhvrn. hefur unnið alla sína vinnu út frá því að þessi aðgerð sem í raun og veru var fyrst og fremst hugsuð í sparnaðarskyni af hálfu þeirra sem héldu um pyngjuna í heilbrrn., ef ég veit rétt, nái fram að ganga.

[12:30]

En því má velta fyrir sér hvort þetta sé endilega góð breyting í stjórnsýslunni að færa það stjórnsýsluvald sem þarna var og þó þessa dreifingu á valdi í stjórnkerfi heilbrigðismála sem lögin á sínum tíma, frá 1974 ef ég man rétt, með tilkomu heilbrigðisráða í kjördæmunum, embættum héraðslækna o.s.frv. var ætlað að hafa í för með sér, að leggja það allt niður og færa þá til miðstjórnarvaldsins á nýjan leik og/eða ætla t.d. heilsugæslulæknum eða yfirlæknum heilsugæslustöðva, eins og hér er meiningin, að taka við þessu verkefni. Það kann vel að henta ágætlega á sumum svæðum þar sem slík svæði eru til staðar og vel afmörkuð og skilgreind en annars staðar er þetta kannski ekki eins einfalt. Að mínu mati hefði líka þurft að horfa til þess hvaða breytingar þetta kunni að þurfa að hafa í för með sér á embætti landlæknis og hlutverki hans, og hefði kannski frekar átt að skoða þá hluti saman, embætti landlæknis væri styrkt og að einhverju leyti endurskipulagt, jafnvel þannig að landlæknisembættið hefði starfsmenn í landshlutunum og þeir tækju þá við slíkum verkefnum og fleirum sem gætu þá færst út í umdæmin en ekki öfugt.

Ég vil a.m.k. hafa alla fyrirvara á því að þetta sé að öllu leyti æskileg þróun sem þarna er pínulítið tilviljanakennt að verða til og a.m.k. ekki sá þáttur hennar sem þýðir uppgjöf gagnvart því markmiði sem var á sínum tíma að reyna að auka eitthvað sjálfstjórn og ábyrgð manna á sviði heilbrigðismála í einstökum kjördæmum eða á einstökum svæðum.

Hvað varðar þá skipulagsbreytingu í frv. að öðru leyti að taka fegrunar- og snyrtiefni inn undir starfsleyfisskylda starfsemi samkvæmt lögunum um holluhætti og mengunarvarnir, þá hef ég kannski ekki heitar meiningar um það. Ég hef ekki velt því mjög mikið fyrir mér, en það er náttúrlega eðlilegt að beðið sé um rök. Maður fer líka að velta fyrir sér hlutum eins og baráttu fyrir því t.d. að verslun með tóbak í búðum yrði leyfisskyld. Ekki hefur blásið byrlega fyrir henni. Hér á hins vegar að gera verslun með fegrunar- og snyrtiefni að starfsleyfisskyldri starfsemi á grundvelli þessara laga.

Þá má líka spyrja hvort í þessu sé að öllu leyti það samræmi sem ætti að vera. Eru þessar vörur það alvarlegar eða líklegar til að geta valdið vandræðum eða hættum að þær ættu að færast þarna inn frekar en jafnvel ýmislegt annað?

Síðan kemur það, herra forseti, að meiningin er að Hollustuverndin fari þá að hafa eftirlit, ekki bara með þessum vörum sem slíkum eða þeim seljendum sem eru með starfsemi á þessum sviðum heldur líka öryggisþáttum, umhverfi þeirra og öryggisþáttum þeim tengdum eins og stendur í 1. gr. og á að bætast inn í 2. mgr. 3. gr. laganna.

Þá spyr maður: Bíðum nú við, er ekki hætta á tvíverknaði þar og skörun við Vinnueftirlitið og önnur lög sem eiga að taka til aðbúnaðar og öryggis á vinnustöðum? Ég verð að játa að þetta vekur ýmsar spurningar sem maður getur kannski ekki svarað og vill fá að velta betur fyrir sér en ég er ekki alveg sannfærður um að það sé endilega hyggilegt að fleiri aðilar fari að skoða þarna sömu þættina. Það kann vel að vera að til sanns vegar megi færa að ákveðnir öryggisþættir séu mjög nátengdir hinni starfsleyfisskyldu starfsemi að öðru leyti. Hér eru nefnd íþróttahús og sundstaðir sem dæmi en ég held að þetta eigi bara almennt við og ég spyr: Er þetta ákvæði útfært í góðu samstarfi við Vinnueftirlitið og eru menn þar á bæ sáttir við þau landamæri sem er verið að draga upp? Ég held að þingnefndir sem um þetta véla þurfi a.m.k. að fara ofan í þetta og reyna eins og kostur er að tryggja að ekki verði þarna neinir árekstrar.

Að síðustu, herra forseti, veit ég ekki betur en að hæstv. ráðherra hafi nýlega boðað alveg grundvallarumbyltingu á öllu þessu kerfi, og þá sérstaklega skipulagslega. Það hefur satt best að segja verið dálítið erfitt að henda reiður á því hvað hefur komið út úr hinum einstöku blaðamannafundum hjá hæstv. ríkisstjórn þegar hún er að boða eina allsherjarstofnun á sviði matvælaeftirlits eða þegar hæstv. umhvrh. kemur allt í einu í fjölmiðlum og er búin að ákveða að stokka saman stofnanir undir umhverfisráðuneytinu, m.a. þessa hér ef ég veit rétt, Náttúruvernd og Hollustuvernd og guð má vita hvað. Væri þá ekki hyggilegast að gera minna en meira þangað til ríkisstjórnin hefur komið sér í aðalatriðum niður á það hvernig hún ætlar að hafa þetta.

Mér finnst vera orðið ansi mikið los, herra forseti, á stjórnsýslunni að þessu leyti. Það er eins og hæstv. ráðherrar líti svo á að stjórnsýslan, stofnanir og viðfangsefni sem undir þá heyra, séu eins og legókubbar sem ekkert mál sé að raða bara upp á nýtt. Er endilega víst að það sé heppilegt fyrir hóflega stjórnfestu í þessum efnum? Ef í vændum eru svo meiri háttar skipulagsbreytingar á þessum stofnunum hefði ég haldið að menn ættu að reyna að fá niðurstöðu í þau mál fyrst. Verkaskiptingin eða breytingar af þessu tagi tækju þá mið af framtíðarfyrirkomulaginu hvað varðar stofnanirnar og verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. Alkunna er að mál geta orðið býsna snúin ef menn missa slíka hluti upp í deilur og togstreitu. Ég ætla ekkert að gefa mér fyrir fram um að í þessu máli séu fólgnar miklar hættur af þeim toga en það er þó algjörlega ljóst að við erum að tala um viðfangsefni sem geta skarast talsvert milli stofnana og jafnvel milli ráðuneyta, eins og ég hef lítillega farið yfir og nefnt í því sambandi þessa leyfisskyldu starfsemi, öryggisþættina og annað í þeim dúr.

Ég veit ekki hvort hæstv. ráðherra er í færum til að upplýsa okkur eitthvað betur um hvar þessi mál eru á vegi stödd. Maður gefur sér að ekki gerist mikið í þessu fyrir vorið, á þeim örfáu starfsdögum sem eftir eru. Einnig má spyrja: Er þetta mál svo brýnt og áríðandi að það þurfi nauðsynlega að fá afgreiðslu nú óháð öðru sem þarna er á dagskrá?