Virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 15:52:44 (7140)

2002-04-08 15:52:44# 127. lþ. 114.6 fundur 503. mál: #A virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal# frv. 38/2002, KolH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[15:52]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Í þessu máli hefur náttúran ekki átt sér neinn málsvara. Hæstv. umhvrh. sem ætti að vera málsvari hennar sveik hana með því að snúa úrskurði Skipulagsstofnunar við sem gefið hafði virkjuninni falleinkunn. Hæstv. iðnrh. sem samþykkti að fram færi faglegt mat á náttúruverndargildi svæðisins norðan Vatnajökuls og það borið saman við nýtingarhugmyndir stjórnvalda hefur setið á faglega unninni skýrslu umsjónarnefndar um málið síðan 10. okt. 2001 og hefur engu svarað um skýrsluna þó að hún hafi verið þráspurð úr þessum ræðustóli.

Herra forseti. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð er á móti því að sökkva náttúruperlum í þágu erlendrar stóriðju sem er ekki einu sinni í sjónmáli í dag. Þess vegna segi ég nei af ástríðu og af hugsjón með hag náttúrunnar og þjóðarinnar allrar að leiðarljósi.