Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:14:24 (7163)

2002-04-08 17:14:24# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það eru nokkur óskyld efnisatriði sem eru á ferðinni í þessu frv. til laga um breyting á umferðarlögum, þ.e. annars vegar breytingar á útgáfu ökuskírteina og þeirra ákvæða sem gilda um bráðabirgðaskírteini og síðan fullnaðarskírteini, hins vegar þær skipulagsbreytingar sem hér eru boðaðar, og þeirra sér aðallega stað í 2. og 3. gr. en þó sérstaklega 6. gr. frv. og áfram þar sem til sögunnar kemur hin nýja Umferðarstofnun.

Um fyrsta atriðið vil ég segja að ég tel alveg koma til álita að gera þá breytingu sem hér er lögð til, að stytta gildistíma bráðabirgðaskírteinis niður í eitt ár enda hafi menn ekið áfallalaust á þessu fyrsta ári. Ég hef þó ef eitthvað er frekar verið talsmaður hins gagnstæða, að fara mjög varlega í sakirnar hvað varðar útgáfu þessara réttinda. Ég hefði talið á sínum tíma að reynsluakstursleyfið hefði allt eins átt að bætast við eða koma til sögunnar frá og með 17 ára aldri frekar en að verða með vissum hætti til þess að lækka aldurinn þannig að menn geta hafið reynsluakstur, að sjálfsögðu undir leiðsögn, strax við 16 ára aldur sem er með því yngsta sem þekkist það ég best veit hvað varðar ökuréttindi. Mjög víða hefur aldurinn verið hækkaður. Við vitum að það er ekkert sérstaklega vinsælt að boða slíkt en ætli menn verði ekki að vera menn til að standa í lappirnar og velta fyrir sér hvar heppilegast sé að þessi mörk liggi. Ég hef a.m.k. miklar efasemdir um að gera þarna nokkrar breytingar, nema að vel yfirveguðu ráði, sem gengju í þá átt að draga eitthvað úr aðhaldinu sem ætlunin er að veita með þá í fyrsta lagi reynsluakstursmöguleikanum, síðan bráðabirgðaskírteininu og loks fullnaðarskírteini.

[17:15]

Ég hef reyndar nokkrum sinnum flutt á þingi brtt. við nákvæmlega þessi ákvæði umferðarlaganna sem gengu út á að taka upp fyrirkomulag sem er þekkt sums staðar erlendis frá, að sérstakt byrjendaskírteini komi til sögunnar, þ.e. eiginleg ökuréttindi en þó sé skilyrt að ökumaður með tiltekna reynslu sé jafnan með í för. Það má segja að þetta sé reynsluakstursfyrirkomulag, bara fært í hina áttina. Þannig er þetta sums staðar erlendis, að menn mega fyrsta árið eða fyrsta hálfa árið stjórna bifreiðum. En að jafnaði þarf þá að vera með ábyrgur aðili, 21 árs að aldri eða eitthvað slíkt. Husunin er sú að menn hafi það aðhald sem því er samfara fyrsta árið eða fyrsta hálfa árið sem þeir eru úti í umferðinni. Ástandið eins og það er í dag er þannig, eins og allir vita, að unglingur, nýorðinn 17 ára, getur fyllt bifreiðina af jafnöldrum sínum eða jafnvel yngra fólki og haldið út í umferðina, þess vegna rétt fyrir verslunarmannahelgi. Þá hvíla á herðum mjög ungs og kannski lítt reynds ökumanns fimm mannslíf.

Tölfræðin talar sínu máli um hið háa hlutfall slysa og óhappa sem yngstu ökumennirnir lenda í og ber allt að sama brunni. Þarna verður að reyna að vanda eins vel til verka og nokkur kostur er. Allra síst, herra forseti, gefur þróunin í umferðaröryggismálunum, þá sérstaklega hvað alvarlegu slysin og banaslysin varðar, tilefni til að fara af neinni léttúð í kringum þetta.

Sem sagt, ég vildi koma þessum hugleiðingum á framfæri og mun sjálfsagt skoða hvort ég blæs lífi í þessa brtt. eða þetta frv. sem ég hef nokkrum sinnum flutt. Það mundi breyta réttindaávinnslukerfinu svolítið frá því sem nú er þannig að menn tækju þetta í raun í einu skrefi í viðbót. Í raun er það umhugsunarefni, herra forseti, að þessi afdrifaríku réttindi, ökuréttindi sem mönnum eru veitt, eru ekki stiggreind hér milli bifreiða t.d. eins og mjög algengt er á öðrum sviðum. Það er mjög algengt þegar réttindi af þessum toga sem eru veitt að einhverju leyti sambærileg, koma í mörgum þrepum. Þar getum við t.d. tekið réttindi sem flugmenn öðlast stig af stigi. Strax í þjálfuninni eða náminu byrja menn að ávinna sér réttindi og mega fljúga með kennara sér við hlið. Síðan fá menn sólópróf og mega stjórna flugvél einir en mega þá ekki bera ábyrgð á öðrum lífum en sjálfs sín. Síðan fá menn flugréttindi, þá atvinnuréttindi o.s.frv. Þetta er tekið í mörgum þrepum. Alltaf þarf að líða viss tími á milli og menn að öðlast viðbótarreynslu á milli.

Það má segja að þetta sé að nokkur leyti innbyggt í bráðabirgða- og fullnaðarskírteinisfyrirkomulagið en er þó í raun og veru tekið í færri skrefum en vel gæti komið vel til greina að athuga að mínu mati.

Í öðru lagi langar mig að spyrja, herra forseti, aðeins um Umferðarstofnunina og hlutverk hennar eða ræða um það mál. Í fyrsta lagi er svolítið erfitt að átta sig á því hvort þarna sé verið að opna glugga í átt til mögulegrar einkavæðingar. Ég nefni þá sem dæmi það sem færist frá ráðuneyti til lögreglustjóra, skipulag ökunámsins og aðra slíka hluti. Hins vegar mætti segja að það væri um ákveðna ríkisvæðingu að ræða. Það stendur hér ákaflega skýrum stöfum að Umferðarstofnun skuli vera sérstök ríkisstofnun. Hún tekur yfir, þ.e. mögulega ef sú verður niðurstaðan hjá starfshópnum, eitthvað af verkefnum Skráningarstofunnar hf. Þá er náttúrlega verið að færa þau verkefni til baka og menn hafa sagt að þar sé ekki mikil breyting af því að ríkið eigi Skráningarstofuna alfarið eins og er. Gott og vel. Mér finnst máli skipta hvernig menn hugsa þetta. Hvaða verkefni fara undir hina nýju stofnun, hver ekki og hvað verður um þau?

Ég spyr t.d. líka um skráningu ökutækja og skráarhaldið sjálft. Á hér að stofna vaxandi ríkisstofnun í Reykjavík, í póstfangi 101, eða hefur hæstv. ráðherra t.d. hugsað sér að í vinnunni verði skoðaður sá möguleiki að einhver hluti þessara verkefna, t.d. skráningarvinnan og skráarhaldið gæti orðið að fjarvinnsluverkefni fyrir fyrirtæki einhvers staðar á landsbyggðinni? Mér er kunnugt um að einmitt slíkar skrár --- það er þekkt sums staðar í nágrannalöndunum --- hafi orðið kjölfestan í uppbyggingu fjarvinnslufyrirtækja í fjarlægum afskekktum byggðarlögum. Ég hygg að norska firmaskráin sé færð inn lengst norður í Noregi, gott ef ekki á Lofoten-svæðinu eða einhvers staðar þar. Ég hef heyrt að ökutækjaskrá sé á einhverju hinna Norðurlandanna einnig færð utan höfuðborgarinnar. Mér fyndist prýðilegt ef hæstv. ráðherra mundi taka vel í að sá starfshópur sem meiningin er að skipa samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu, eða verkefnisstjórn svo maður hafi þetta eins og það er orðað, færi yfir þessa hluti, að þarna væri haldið opnum öllum möguleikum til að vinna þessi verkefni annars staðar en á höfuðborgarsvæðinu. Þar með gæti þetta verið liður í að dreifa verkefnum og störfum á vegum hins opinbera um landið.

Auðvitað gæti hin nýja Umferðarstofnun í heild sinni komið til sögunnar í öðru byggðarlagi en hér. Það má kannski segja að vel beri í veiði þegar beinlínis er verið að stofna nýja ríkisstofnun, sem gerist ekki á hverjum degi þó að reyndar sé núverandi ríkisstjórn ótrúlega dugleg við það. Það verður að segjast, og er dálítið merkilegt, að það eru að læðast í gegn býsna margar opinberar stofnanir hjá hæstv. ríkisstjórn. Hérna rétt áðan vorum við að ræða við hæstv. umhvrh., herra forseti, um Umhverfisstofnun. Það verður líka heilmikil ríkisstofnun. Þeim er því kannski ekki eins leitt og þeir láta, hæstv. ráðherrum, að ríkisstofnanir sinni málunum.

Í þriðja lagi, herra forseti, spyr ég um stjórnkerfið þegar kemur að því að Umferðarráð á að starfa áfram. Það er náttúrlega ljóst að það verður í gerbreyttu samhengi þar sem verkefnin eða reksturinn sem Umferðarráð hefur haft með höndum hverfur til hinnar nýju Umferðarstofnunar og eftir situr ráð með ráðgefandi hlutverk, ef ég hef skilið rétt. Það á að vinna almennt að auknu umferðaröryggi og bættum umferðarháttum og á að koma að og vera til ráðgjafar við gerð umferðaröryggisáætlunar og framkvæmd hennar. Það skal og koma að fræðslu- og upplýsingamiðlun, segir í 10. gr. og vera samráðsvettvangur þeirra sem fjalla um umferðarmál og láta sig umferðaröryggi varða.

Allt hljómar þetta prýðilega, herra forseti. En svo kemur á daginn að Umferðarstofnun á eftir sem áður að vera umsagnaraðili um umferðarfræðslu í skólum en ekki Umferðarráð. Hvernig kemur þetta heim og saman ef eitt meginhlutverk Umferðarráðs, á eftir sem áður að vera fræðsla og upplýsingamiðlun? Manni finnst skjóta svolitið skökku við að hin opinbera stofnun, stjórnsýslustofnunin, eigi samt að taka við þessum þætti málsins. Ég hélt einmitt að eitt af því sem menn væru almennt sammála um væri að Umferðarráð hefði sinnt mjög vel umferðarfræðslu í skólunum. Flestum er kunnugt um efnið sem Umferðarráð sér um að senda börnum varðandi aðgát í umferðinni o.s.frv.

Maður fer að velta því fyrir sér, hvaða hlutverk verður eftir fyrir Umferðarráð. Dagar það ekki pínulítið uppi? Endar það kannski eins og Náttúruverndarráð, að nokkrum árum eftir að Náttúruvernd ríkisins var komið á sem stofnun og verkefnin fóru frá ráðinu, þá var það slegið af? Það kom að vísu til af pólitískum ástæðum líka því ráðið hafði verið með óþægð við hæstv. umhvrh. sem sá sér þægð í að losna við það. Það er ljóst að slíkur aðili stendur að mörgu leyti veikari að vígi hafi hann ekki á sínum snærum starfsfólk, þekkingu og burði sem eru þó samfara nokkuð öflugri starfsemi.

Þá má alveg eins fara að velta fyrir sér hvort það ætti að leggja ráðið niður, án þess að ég sé talsmaður þess. Ég er ekki að mæla með því en þó er alveg ljóst að engum er greiði gerður með því að skilja ráðið eftir eins og illa gerðan hlut þannig að innan fárra ára fyndist mönnum kannski einfaldast að slá það af. Mér finnst að eitt af því sem þyrfti að athuga mjög vel í þessu máli, herra forseti, sé staða Umferðarráðs þegar hin nýja Umferðarstofnun væri komin til sögunnar og hefði að ýmsu leyti yfirtekið hin praktísku verkefni sem þar hafa áður verið á ferðinni.

Ég held, herra forseti, að þar með hafi ég talið upp þær athugasemdir sem ég sé ástæðu til að gera við 1. umr. málsins.