Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 17:28:13 (7164)

2002-04-08 17:28:13# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, ÞKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það vakti athygli mína sem kom fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar, þ.e. að hann vildi bæta við fleiri reynslustigum eða bráðabirgðastigum í þessu ökuferli. Ég aftur á móti tel þá leið sem valin er í þessu frv. allrar athygli verða. Það er eiginlega tvennt sem ég tel geta stuðlað að bættu umferðaröryggi, sér í lagi meðal ungs fólks, þ.e. ekki að fara þráðbeint út í að hækka ökuprófsaldurinn í 18 ár --- það kom skýrt fram í vinnu þess starfshóps sem ég var í --- heldur mæltu þeir fagaðilar sem við í nefndinni töluðum við frekar með því að auka aðhaldið með jákvæðri uppbyggingu og fræðslu eins og þetta frv. felur í sér, þ.e. akstursmati og hærri sektum. Þetta tvennt held ég að muni gefa góða raun ef samþykkt verður og ég mæli með því að leiðin sem um getur í frv. verði farin enda segir m.a. í greinargerðinni, með leyfi forseta:

,,Eðlilegt er að árangur þessa nýja úrræðis verði kannaður að liðnum nokkrum tíma frá því að akstursmati er komið á. Stefnt er að slíkri úttekt að liðnum þremur árum frá gildistöku laganna og þá lagt mat á það hvort reglur um akstursmat hafa skilað árangri.``

Það kom alveg skýrt fram í vinnu hjá okkur í þessari nefnd að hann hefur skilað mjög góðum árangri, miklu meiri árangri en menn gerðu sér grein fyrir í upphafi, þessi æfingarakstur frá 16--17 ára aldurs. Í raun má segja að þeir 17 ára unglingar sem hafa fengið ökupróf eftir að hafa verið í æfingaakstri séu betur settir en þeir sem tóku það ekki á sínum tíma. Ég held því að þetta sé eitt skref til bóta í átt að auknu umferðaröryggi.