Umferðarlög

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 18:26:31 (7182)

2002-04-08 18:26:31# 127. lþ. 114.27 fundur 652. mál: #A umferðarlög# (Umferðarstofa o.fl.) frv. 83/2002, JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[18:26]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég dreg ekki í efa að menn muni standa við þessi orð. Ég vonast til að þessir starfsmenn geti orðið álíka hamingjusamir og þeir voru hjá Skráningarstofnunni þó að þeir telji greinilega, a.m.k. í bréfi sínu, að fyrirkomulag sem er núna sé betra en það sem starfseminni er ætlað í framtíðinni.

Ég verð að segja eins og er, að mér finnst að þau þrjú ár sem verið er að tala um sem reynslutíma á þetta fyrirkomulag sem hérna er lagt til að verði tekið upp séu of langur tími. Ef þetta skilar sér ekki strax --- ég held nefnilega að menn sjái þetta býsna fljótt hvað slysin varðar --- í fækkun slysa tel ég að menn þurfi að bregðast við og hafa ekki takmarkandi frest hvað þetta varðar. Ég hvet hæstv. ráðherra til að líta þannig á málið að ef menn telji að þetta ákvæði bindi að einhverju leyti verði því einfaldlega breytt þannig að endurskoðun fari fram strax og menn telja ástæðu til.