Stefnumótun um aukið umferðaröryggi

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 19:52:42 (7194)

2002-04-08 19:52:42# 127. lþ. 114.30 fundur 599. mál: #A stefnumótun um aukið umferðaröryggi# þál. 14/127, GAK
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[19:52]

Guðjón A. Kristjánsson:

Herra forseti. Það sem mig langar m.a. til að taka fyrir í tengslum við þessa þáltill., um stefnumótun um aukið umferðaröryggi, er atriði sem ég hef verið upplýstur um, hina svokölluðu tímamælingu á þá menn sem keyra flutningabíla. Hún getur m.a. valdið því að menn eru í mikilli pressu við að ná innan ákveðinna tímamarka til ákveðinna staða, t.d. að vetrarlagi milli Reykjavíkur og Ísafjarðar. Ég hygg að þær reglur sem við höfum varðandi hvað hver ökumaður má keyra lengi samfellt á ákveðnu tímabili geti beinlínis verkað þannig að menn keyri á lögboðnum hámarkshraða við aðstæður sem bjóða ekki upp á slíkt aksturslag. Ég vildi vekja athygli á þessu vegna þess að ég tel að þetta sé eitt af því sem þarf að taka mjög gaumgæfilega til athugunar þegar verið er að tala um umferðaröryggi hér á landi, og hvernig umferðarþunginn er um þjóðvegi þess. Eins og allir vita hafa vöruflutningar á þjóðvegum mikið aukist. Síðan eru kröfur á menn um að standast ákveðnar viðmiðunarreglur varðandi samfellda keyrslu í tíma.

Það er m.a. þetta sem ég vildi vekja athygli á. En mig langar að vekja athygli á öðru, og það er aksturshraði. Þegar menn tala um aksturshraða telja þeir yfirleitt að frekar eigi að færa hann niður en hitt. Á Vestfjörðum hagar þannig til að alveg nýverið var lagt varanlegt slitlag á allan veginn í Ísafirði, innst í Ísafjarðardjúpi. Þegar Vestfirðingar margir, sérstaklega þeir sem eru í einkaerindum, keyra hina frægu Þorskafjarðarheiði yfir sumartímann hagar svo til að á þeim slæma vegi mega menn keyra á allt að 70 km hraða, ef ég man rétt, en þegar menn koma niður í Ísafjörðinn á malbikaðan veg með tiltölulega lítilli umferð mega menn mest fara í 90 km hraða. Ég er að draga þetta fram vegna þess að mér finnst ákaflega lítið samræmi þarna á milli miðað við í hvernig ásigkomulagi þessir tveir vegir eru. Ég held því að við þurfum að athuga mjög margt varðandi umferðaröryggi hér á landi, t.d. hvaða takmarkanir við höfum í hámarkshraða eftir árstíma. Ég held að við eigum að skoða það í alvöru hvort eðlilegt sé e.t.v. að hafa breytilegan hámarkshraða á ákveðnum köflum á þjóðvegum landsins miðað við árstíma, þá líka miðað við umferðarþunga.

Þessum hugmyndum vildi ég bara varpa inn í umræðuna til að vekja á þeim athygli, og ég vonast annars vegar til þess að sú ályktun sem við ræðum hér, um aukið umferðaröryggi, verði almennt til þess að auka það en ég held hins vegar að það sé að mörgu að hyggja, m.a. þessum dæmum sem ég hef nefnt.

Síðan tek ég undir það sem hv. síðasti ræðumaður, Kristján L. Möller, nefndi. Slíkum áætlunum sem hér er lagt upp með verður auðvitað að fylgja fjárveiting og plan um það hvernig við ætlum að fylgja þeim málum eftir sem við setjum stefnuna á. Að öðru leyti held ég að margt gott sé í þessu plaggi og tel að það sé að mörgu leyti góður vegvísir.