Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 20:52:39 (7206)

2002-04-08 20:52:39# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, KolH
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[20:52]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna frv. til laga um Tækniháskóla Íslands. Sömuleiðis er ástæða til að fagna því að formlega skuli Sjálfstfl. hafa látið af mislukkuðum tilraunum sínum til að einkavæða tækninám á háskólastigi.

Það er ekki ástæða til að fara í löngu máli yfir þá þrautargöngu en nægir að nefna skipbrot síðustu tilrauna sem bar upp á sker með Margmiðlunarskólanum sem var mikið í umræðunni fyrir örfáum vikum.

Það er mjög mikilvægt þegar mál af þessu tagi kemur til umfjöllunar menntmn. að þess sé gætt í hvívetna að lög þessi verði í fullu samræmi við lög um Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Það kemur til með að verða eitt af meginverkefnum nefndarinnar, að kanna hvort sú samræming er til staðar eins og kveðið er á um í frv.

Tækniskólinn hefur nýlega sett fram mjög aðgengilega, öfluga og bjarta framtíðarsýn fyrir tækninám á háskólastigi. Sú framtíðarsýn hefur verið gefin út í formi skýrslu og menntmn. hefur haft þá skýrslu til skoðunar. Þar er satt að segja afar margt athyglisvert þannig að ég treysti mér til að fullyrða að þeir sem stýra tækninámi í dag í Tækniskóla Íslands eru sannarlega í stakk búnir til að takast á við það metnaðarfulla verkefni sem þetta frv. leggur þeim á herðar. Ég er sannfærð um að þeir sem þar stýra málum nú iða í skinninu eftir því að þessi lög verði að veruleika. Ég mun gera allt sem í mínu valdi stendur til að þetta mál fái farsæla lausn og skjóta í menntmn. því að það ríður á að lög um tækninám á háskólastigi, lög um Tækniháskóla Íslands verði samþykkt á Alþingi.

Það er kannski ekki ástæða til þess að fara djúpt í greinar frv. Hæstv. ráðherra fór yfir helstu atriðin í máli mínu. Það sem ég vil kannski fagna sérstaklega er 12. gr. varðandi aðstöðuna til rannsókna, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Tækniháskóla Íslands er heimilt að starfrækja rannsóknastofnun, á eigin vegum eða í samvinnu við aðra, sem sinnir hagnýtum rannsóknum og þróunarstörfum í þágu atvinnulífsins.``

Það er afar mikilvægt að þessi grein skuli vera til staðar. Hún er forsenda þess að rannsóknarhlutverk hins væntanlega háskóla verði rækt með miklum myndarbrag.

Síðar í greininni, herra forseti, segir:

,,Rannsóknastofnunin skal eftir því sem aðstæður leyfa veita nemendum skólans ráðgjöf og fræðslu um skipulagningu og framkvæmd rannsókna.``

Herra forseti. Ég læt í ljós þá frómu ósk að því verði aldrei borið við í rannsóknastofnun Tækniháskóla Íslands að aðstæður leyfi ekki að nemendum skólans sé veitt ráðgjöf og fræðsla varðandi skipulagningu rannsókna. Auðvitað er það algjört lykilatriði að nemendur hafi greiðan aðgang að þeirri rannsóknastofnun sem skólinn kemur til með að starfrækja.

Varðandi 13. gr. er auðvitað mikilvægt að hún sé í samræmi við lög um Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands. Ég tek undir það sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson sagði í ræðu sinni áðan. Það þarf aðeins að líta á þetta með háskólaráðið, hvort hér sé um stórt atriði að ræða eða ekki, þ.e. hlutfall þeirra sem skipaðir eru í háskólaráðið af menntmrh. Það verður skoðað í vinnu nefndarinnar og sömuleiðis geri ég ráð fyrir að það verði eilítið flókið að fara í gegnum ákvæði til bráðabirgða varðandi umskiptin þegar Tækniskóli Íslands verður gerður formlega að háskóla. Ég treysti því að hér sé gert ráð fyrir að haldið verði á málum á sanngjarnan hátt. Að þessu frv. lesnu hef ég ekki ástæðu til að ætla annað. Ég geri þó ráð fyrir að nefndin gefi þessu atriði sérstakan gaum.

Það er mikilvægt að í grg. með frv. skuli markmið skólans orðuð á þann hátt sem þar er gert. Markmið hans er samkvæmt grg. að búa nemendur undir að takast á við síbreytileg viðfangsefni og krefjandi störf í atvinnulífinu. Það er afar þýðingarmikið, eins og þeir vita sem komið hafa að málum í Tækniskóla Íslands, að hafa opinn og skapandi vettvang í atvinnulífinu og í samstarfi við atvinnulífið. Það hefur verið mikill vilji til þess. Bolmagn skólans hefur kannski verið fulllítið til að hann hafi getað rækt það samband nægilega en ég læt í ljós þá ósk að hægt verði að rækja það samband betur og efna til meiri áburðargjafar í þann akur þegar skólinn er formlega kominn á háskólastig. Ég sé ekki annað en að í frv. sé gert ráð fyrir öflugum og skapandi tengslum við atvinnulífið sem er nauðsynlegt.

Svo er líka mikilvægt sem fram kemur í grg., að nám í Tækniháskóla Íslands eigi að opna nemendum hans leið til viðbótarmenntunar í öðrum háskólum. Tækniháskóli Íslands yrði auðvitað þrep, áframhaldandi menntun biði þeirra hæfu nemenda sem þaðan útskrifuðust. Ég geri ráð fyrir að ef metnaðurinn sem fram kemur í þessari setningu grg. fær að ráða komi fjöldi nemenda til með að halda áfram og kanna frekari lendur tæknináms á háskólastigi.

Það er ekki þörf á því að lengja verulega umræðuna um umsögn fjármálaskrifstofu fjmrn. Það er hárrétt, sem hv. þm. Einar Már Siguðarson benti á, að það vekur óneitanlega ugg að fram kemur í umsögn fjmrn. á þremur eða fjórum stöðum, þ.e. að það skuli tekið svo skýrt fram í henni og svo oft, að að óbreyttum fjárveitingum þurfi að gera verulegar breytingar á náminu og endurskipuleggja þjónustuna til að draga úr kostnaði.

Þetta getur ekki verið markmið löggjafans með setningu þessara laga. Við í menntmn. vitum manna best við hvaða kost Tækniskóli Íslands hefur þurft að búa undanfarin ár. Við höfum gert það sem í okkar valdi hefur staðið í vetur til að reyna að koma þessum málum á rekspöl. Við höfum kallað sérstaklega til okkar aðstandendur Tækniskóla Íslands. Fjárhagsstaða þess skóla hefur verið afar erfið, eins og reyndar kemur fram í umsögn fjmrn. Auðvitað er það brýnna en margt annað að löggjafinn, þá náttúrlega fjármálavaldið, standi þannig að málum við lagasetninguna að þar verði tekið svo myndarlega á að fjárhagur skólans, hins nýja skóla, verði vel tryggður í upphafi þessa öfluga náms. Ég tel mikilvægt að koma í veg fyrir að strax verði farið í að herða sultarólina að hugsjónunum eða skera af sér handlegg eða fótlegg til að geta gert nokkurn skapaðan hlut.

[21:00]

Það sem kemur fram í umsögn fjmrn. er þess eðlis að manni virðist sem þeir lesi það út úr frv. að ekkert eigi að gera til breytinga á fjárhag eða fjármálum tæknináms á háskólastigi. En auðvitað er lífsnauðsynlegt að þar verði tekið myndarlega á og fyrirheit um slíkt þurfa auðvitað að fylgja frá hæstv. menntmrh. í kjölfar frv. Ekki er hægt að ætlast til þess að öflugt tækninám á háskólastigi verði sett á legg í nýrri öflugri menntastofnun ef ekkert á að gera til þess að leiðrétta gamlan halla og búa til nýjan tryggan fjárhagsgrundvöll.

Ég treysti því að við þurfum ekki að stranda á þeirri umsögn sem fjmrn. hefur látið frá sér fara sem fylgiskjal með greinargerðinni, heldur að tekið verði á þeim fjármálum á öflugan hátt strax í byrjun. Fyrirheit um öruggan og tryggan fjárhag þarf að fylgja frv. í gegnum menntmn.

Að svo mæltu, herra forseti, lýsi ég því yfir að ég tel vera metnaðarfulla framtíðarsýn fólgna í frv. Ég tel löggjafann skulda tækninemum og atvinnugreinum sem eiga í hlut að málið fari til menntmn. og fái þar öfluga og skjóta afgreiðslu, vandaða en skjóta, því ég tel mjög mikilvægt að frv. verði gert að lögum á þessu þingi.