Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 21:20:15 (7209)

2002-04-08 21:20:15# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, SJóh (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[21:20]

Sigríður Jóhannesdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hygg að við getum öll verið sammála um að meginmarkmiðið er að byggja upp og efla almennt tæknimenntun í landinu og út frá því séð get ég vel fallist á að við eigum líka að efla tæknimenntun og framboð á tæknimenntun á Akureyri. En mér brá að heyra hv. þingflokksformann Framsfl. leggja það til nú, þegar við erum að afgreiða frv. til laga um Tækniháskóla Íslands, að það eigi frekar en að stofna þennan skóla að flytja hann til Akureyrar. Mér kemur þetta mjög á óvart.

Hverjir sækja þennan skóla fyrst og fremst? Fyrst og fremst eru þetta mjög góðir námsmenn úr iðnaðarmannastétt sem vilja fá sér frekari tæknimenntun. Þetta eru mjög oft menn sem eru komnir með fjölskyldu og það mundi hreinlega hamla þeim að geta stundað nám sitt ef þeir þyrftu að flytja út á land til þess. Það væri mjög erfitt. Ég verð að segja að ég held að það sé alveg höfuðnauðsyn, ef við ætlum raunverulega að efla tæknimenntun í landinu, að bjóða einmitt upp á öflugan tækniháskóla og endilega að fjölga þeim sem sækja hann og leita sér tæknimenntunar en ekki að hrekja þá út á landsbyggðina. Það er ekki lausn á málinu.