Tækniháskóli Íslands

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 22:17:56 (7230)

2002-04-08 22:17:56# 127. lþ. 114.31 fundur 649. mál: #A Tækniháskóli Íslands# frv. 53/2002, menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[22:17]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich) (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég hef tekið fram fyrr í umræðunni finnst mér ekkert því til fyrirstöðu að hv. menntmn. kalli á allar upplýsingar um aðdraganda málsins --- ég hygg að þær séu til í ráðuneytinu --- til að upplýsa sig í nokkrum smáatriðum um það hvernig þær viðræður gengu og hvað olli því að þær náðu ekki fram að ganga.

Að því er varðar samstarfið við Háskólann á Akureyri er ljóst að í gildi er samstarfssamningur milli háskólanna tveggja, í raun einnig viðamiklir samstarfssamningar við Háskóla Íslands og það er ekkert sem hindrar að skólarnir efli þetta samstarf. Hægt er að segja að eðlilegasta aðferðin við að skoða þessa möguleika sé að skólarnir fari sameiginlega í að skoða hvaða flötur sé á eflingu samstarfs þeirra og þeir gangi þá til þeirrar samvinnu á jafnréttisgrundvelli.