Merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl.

Mánudaginn 08. apríl 2002, kl. 22:27:18 (7233)

2002-04-08 22:27:18# 127. lþ. 114.35 fundur 669. mál: #A merkingar og upplýsingaskylda varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl.# (EES-reglur) frv. 61/2002, iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 127. lþ.

[22:27]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 72/1994, um merkingar og upplýsingaskyldu varðandi orkunotkun heimilistækja o.fl.

Þann 13. des. 1999 samþykkti Evrópusambandið tilskipun um aðgengi neytenda að upplýsingum um eldsneytiseyðslu og koltvísýringslosun við markaðssetningu nýrra fólksbifreiða. Efni tilskipunarinnar gengur út á að tryggja almenningi aðgengilegar upplýsingar um eldsneytisnotkun og koltvísýringslosun í útblæstri nýrra fólksbifreiða með auglýsingum og auglýsingaskiltum á sölustöðum slíkra bifreiða. Tilskipunin var felld inn í XX. viðauka við EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 8 frá 31. jan. 2001. Markmið hennar er að reyna að draga úr eldsneytisnotkun og koltvísýringslosun frá bifreiðum með því að hafa áhrif á val neytenda með upplýsingagjöf. Slíkt er til þess fallið að hvetja neytendur til að velja frekar bifreiðar sem þurfa minna eldsneyti og draga þannig úr losun koltvísýrings.

Ákvæðum tilskipunarinnar má skipta í fjóra þætti. Í fyrsta lagi er kveðið á um að aðildarríki skuli sjá til þess að miði um eldsneytiseyðslu og losun koltvísýrings sé greinilega festur við hverja nýja fólksbifreið á sölustað eða komið fyrir í grennd við hana. Í öðru lagi skulu aðildarríki sjá til þess að í samráði við framleiðendur og í samræmi við kröfur tilskipunarinnar verði að minnsta kosti ár hvert samið yfirlit yfir eldsneytiseyðslu og losun koltvísýrings. Í þriðja lagi skulu aðildarríki sjá til þess að fyrir hverja bifreiðategund verði komið fyrir veggspjöldum með lista yfir opinbera eldsneytiseyðslu og opinbera tiltekna losun koltvísýrings allra nýrra fólksbifreiða sem eru sýndar eða boðnar til sölu eða leigu á sölustað eða í umboði sölustaðar. Í fjórða lagi er lagt á aðildarríki að sjá til þess að í öllum kynningarritum séu upplýsingar um þekkta eldsneytiseyðslu og losun koltvísýrings frá þeirri fólksbifreið sem vísað er til.

Samkvæmt upplýsingum orkuspárnefndar nam notkun bifreiða og annarra tækja á bensíni og gasolíu u.þ.b. 250 þús. tonnum árið 2000. Meðalnotkun bifreiða á eldsneyti hefur minnkað undanfarna áratugi en á móti kemur að bifreiðum hefur fjölgað. Í eldsneytisspá orkuspárnefndar 2001--2030 er gert ráð fyrir að orkunýting bifreiða haldi áfram að batna þó að það gerist ekki eins hratt og síðustu tvo áratugi. Þá gerir orkuspárnefnd ráð fyrir að meðaleldsneytisnotkun bifreiða á ekinn kílómetra minnki um 7% til loka spátímabilsins. Miðað við þessar forsendur verður eldsneytisnotkun bifreiða og tækja 300 þús. tonn árið 2030.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu mælist ég til þess að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.