Afbrigði

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 11:27:19 (7267)

2002-04-09 11:27:19# 127. lþ. 115.94 fundur 491#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), VE (um atkvæðagreiðslu)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[11:27]

Vilhjálmur Egilsson (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Mér sýnist að virðulegur forseti hafi lesið þetta alveg rétt. Ég veit ekki til annars en að þar sem stendur í lögum að leita skuli samþykkis Alþingis eða samþykkis þingsins sé átt við einfaldan meiri hluta. Ég veit ekki til þess að það þýði eitthvað annað, þ.e. að leita samþykkis Alþingis vísi til annars en einfalds meiri hluta, nema þá að annað sé sérstaklega tekið fram.

Varðandi þá gagnrýni sem hér hefur komið fram á hæstv. forseta, um að hann hefði fyrir fram átt að vera búinn að ræða þetta mál, þá verð ég að segja að það þarf býsna mikið hugmyndaflug til þess að láta sér detta það í hug að hv. þingmenn neiti um afbrigði á þessu máli og greiði atkvæði gegn því að það komi á dagskrá. Ég hlustaði áðan á kröfur, frá hv. þm. Vinstri grænna ekki síst, um að þetta mál fengi vandaða meðferð í þinginu. Til þess að þetta mál fái nú sem vandaðasta meðferð þá þarf að ræða það í dag og vísa til nefndar fyrir nefndadagana sem eru á miðvikudag, fimmtudag, föstudag og mánudag í næstu viku. Það hefði greitt fyrir því að málið fengi vandaða meðferð og allar þær góðu hugmyndir sem hv. þingmenn telja að þeir hafi í þessu máli fengju eðlilega meðhöndlun.

Það er hætt við því að það gefist ekki jafnmikill tími til þess að hlusta á hv. þingmenn fjalla um þetta mál ef það kemst ekki til nefndar í dag. Þess vegna hefði maður haldið fyrir fram að hv. þingmenn mundu segja já við þessu. Það væri kannski ráð að hæstv. forseti endurtæki atkvæðagreiðsluna þannig að hv. þm. gætu skipt um skoðun og greitt atkvæði með þessu. (Gripið fram í: Nægir að leggja málið fram á réttum tíma.)