Húsnæðismál

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 14:35:01 (7286)

2002-04-09 14:35:01# 127. lþ. 115.13 fundur 710. mál: #A húsnæðismál# (félagslegar íbúðir) frv. 86/2002, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[14:35]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ekki ætla ég að takast á við þingmanninn um margra ára gömul samtöl en ég man þau af því að þau glöddu mig, og ég hef oft sagt frá því síðar. Það var ekki oft sem maður fékk jákvæðar upphringingar á þeim tíma út af einhverju slíku máli.

En hvað ætli kosti að leigja þessar íbúðir í dag? Gerir þingmaðurinn sér grein fyrir því að lengst af voru vextirnir á þessum íbúðum 2,4%? Veit hann hvað þeir eru í dag? Veit hann að fólk borgar 70--80 þús. kr. í leigu? Hann var áðan að tala um vextina til húsnæðiskaupa --- veit hann að það er hægt að fara bara í bankana og fá sömu vaxtakjör og eru núna á þessum lánum sem verið var að tala um? Ég tók það sérstaklega fram í ræðu minni að það hvernig maður vildi búa að þegnum landsins snerist um lífssýn og afstöðu, og að pólitísk afstaða væri mjög oft bara lífsskoðun fólks. Og ég er stolt af því hvernig minn flokkur, jafnaðarmenn, hefur í gegnum tíðina staðið að málum og viljað búa í haginn fyrir fólk sem hefur lítið milli handanna.

Auðvitað vill maður helst að allir búi við þau kjör og beri það úr býtum fyrir vinnu sína eða það sem það hefst að að fólk geti bara gert hluti eins og það kýs sjálft. Þannig er það ekki og þá er reynt að grípa til félagslegra úrræða. Þess vegna er þetta frv. hér í dag. Þess vegna hafa verið flutt frv. til breytinga á þeim lögum sem mönnum þykja ekki nógu góð, lögum sem við settum. Þess vegna erum við að þessu, af því að kjör eru ólík. En það sem þingmaðurinn hefur haldið fram í ræðu sinni er alveg dæmalaus útúrsnúningur saman við slatta af fáfræði, svo ég noti líkt tungutak og hæstv. forsrh. gerir títt í þessum sal nema að hann notar gjarnan eitthvað um greind fólks.