Flugmálaáætlun árið 2002

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 18:22:53 (7336)

2002-04-09 18:22:53# 127. lþ. 115.16 fundur 681. mál: #A flugmálaáætlun árið 2002# þál. 27/127, GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[18:22]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Í fyrsta lagi kem ég upp í andsvar við hv. þm. vegna þess að hann talaði um umhverfi Reykjavíkurflugvallar. Í því máli er verulegt átak þar sem eftir á að girða um 2,1 kílómetra í kringum Reykjavíkurflugvöll. Þegar hefur verið gert átak upp á rúma 7 kílómetra, þannig að þar er mikið verk að vinna.

Ég held að flugmálayfirvöld og hæstv. samgrh. geri sér fulla grein fyrir því að það er mál málanna, svo Reykjavíkurflugvöllur verði nú ekki til óyndis, hve brýnt það er að girða og ganga fallega frá flugvallarsvæðinu í Reykjavík.

En ég get þó ekki látið hjá líða að fagna þessari umræðu hjá hv. þm. um Reykjavíkurflugvöll og stöðu mála þar. Ég er einn þeirra þingmanna Reykjavíkur sem styðja eindregið að Reykjavíkurflugvöllur verði hér áfram. Ég hef oft bent á það við stóðum frammi fyrir vanda og Reykvíkingar deildu hart á okkur fyrir að Landmælingar Íslands skyldu fluttar upp á Akranes þar sem voru rúm 20 stöðugildi. Hluti sama hóps deildi á að Reykjavíkurflugvöllur skyldi vera hér áfram og vildi hann burt en þar eru 1.200 störf og miklir viðskiptalegir hagsmunir sem skipta miklu máli. Ég fagna því hve þingmenn utan Reykjavíkur standa fast að baki okkur þingmönnum hér í Reykjavík um vörslu Reykjavíkurflugvallar og sérstaklega um það sem snýr að flugstöðinni.

Það er alveg rétt, eins og hv. þm. kom inn á, að við höfum kannski fallið bara í viðjar vanans og ekki gert neinar athugasemdir við þessa flugstöð, látið hana dankast alveg frá því seinni heimstyrjöldinni lauk. Það er ekki fyrr en fólk, gestir með glöggt auga, fer að spyrja hvernig standi á því að flugstöðin er eins og hún er að menn taka að huga að þessum málum. Þess vegna fagna ég átakinu sem nú er verið að gera og fagna ummælum þingmannsins varðandi þetta mál.