2002-04-09 20:58:15# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, KolH
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[20:58]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við ræðum hér till. til þál. um aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Ég tel rétt í upphafi máls míns að lýsa yfir ánægju minni með að nú skuli loksins vera runnin upp sú stund að íslensk stjórnvöld ætla að ganga fram fyrir skjöldu og fullgilda Kyoto-bókunina. Ég vil óska okkur þingmönnum til hamingju með það. En ég vildi óska að þetta hefði getað gerst fyrr. Ég vildi líka óska að þetta hefði getað gerst án þess að við værum hér það sem kallað er á útlendum málum ,,Free Rider``, þ.e. að við fleytum hér rjómann af öllu og förum í gegnum Kyoto-ferlið án nokkurra skuldbindinga með gífurlegri meðgjöf sem við fáum ókeypis. Þrátt fyrir allt þetta er ég glöð yfir því að þessum áfanga skuli þó vera um það bil náð.

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. sem fylgir hér málinu úr hlaði hefði gjarnan mátt fara nánar út í stefnumörkun íslenskra stjórnvalda varðandi Kyoto-málin. Ef við eigum að hafa hér málefnalega umræðu um þá stefnumörkun þá hefði verið fengur að því að hann hefði fylgt þeim hluta þessa máls betur úr hlaði með ítarlegri yfirferð varðandi stefnumörkun, því auðvitað er ekki alveg sanngjarnt að þingmönnum sé bara gert það kleift á annatímum í þinginu að lesa þær blaðsíður sem hafa að geyma stefnumörkun íslenskra stjórnvalda í þessum málum. Það er alveg sjálfsagt að bjóða upp á málefnalega umræðu í þinginu þó að við séum öll þreytt, þó að miklar annir séu. En mér heyrist á því hvernig hæstv. utanrrh. flutti mál sitt áðan að hann ætli ekki að bjóða upp á neinar sérstakar umræður um þá stefnumörkun. Um hana er sannarlega þörf að að ræða og ég geri mér vonir um að þingmenn, þeir sem hafa haft áhuga á þessum málum allar götur síðan 1997 eða 1998, hafi í pokahorninu ýmislegt sem þeir gætu lagt stjórnvöldum til, góð ráð, uppbyggileg og málefnaleg, til þess að stefnumörkun íslenskra stjórnvalda geti orðið efnislega gjöful og frjósöm þrátt fyrir þá annmarka sem eru á öllu málinu frá byrjun.

[21:00]

Herra forseti. Það er svo sem ekki ástæða til að rekja neitt frekar hér hvernig okkur gekk í árdaga þessarar Kyoto-bókunar. Baráttan var hörð, það var ansi mikil krafa úr samfélaginu á ríkisstjórnina um að fullgilda bókunina strax á þeim tíma sem hún lá frammi til staðfestingar, jafnvel undirritunar. Íslensk stjórnvöld ákváðu að gera það ekki fyrr en, eins og hæstv. utanrrh. orðaði það og hefur verið orðað í ótal plöggum íslensku ríkisstjórnarinnar, ,,ásættanleg niðurstaða næðist í sérmálum Íslendinga``.

,,Ásættanleg niðurstaða`` náðist í Marrakesh. Og hver var þessi ásættanlega niðurstaða? Jú, herra forseti, Íslendingar fá að losa 1,6 millj. tonna af gróðurhúsalofttegundum án þess að þurfa að kaupa fyrir það losunarheimildir. Og þessar 1,6 millj. tonna ætla íslensk stjórnvöld, að því er virðist, að færa stóriðjufyrirtækjum á silfurfati. Það er alveg ljóst af þeim tölum sem koma fram í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar að hér er um að ræða ákveðin eyrnamerkt verkefni. Þessi tala, 1,6 millj. tonna, er engin tilviljun því að hún er klæðskerasniðin utan um þau verkefni sem eru í farvatninu.

Nú væri í sjálfu sér eðlilegt, herra forseti, að við fengjum hér upp umræðu um hvernig íslensk stjórnvöld sjá fyrir sér losunarheimildir fyrir annan iðnað, iðnað sem ekki er gert ráð fyrir í þessum stóriðjuverkefnum sem eru alltaf tekin sem viðmiðun við þessar 1,6 millj. tonna. Það er eðlilegt að við spyrjum: Ef upp kæmi iðnaður á Íslandi sem ekki tengdist þessum eyrnamerktu stóriðjuverkefnum, iðnaður sem þyrfti samt á losunarheimildum að halda, mundu íslensk stjórnvöld senda þá iðnrekendur út af örkinni til að kaupa sér losunarkvóta? Til viðbótar er eðlilegt að maður spyrji: Hvaða sérsamningar eru það sem álfyrirtækin eiga að njóta sem aðrir iðnrekendur, sem mögulega þurfa að losa gróðurhúsalofttegundir, fá ekki notið? Maður spyr sig: Eru Samtök atvinnulífsins og atvinnurekendur sátt við þetta? Er hér verið að gæta jöfnuðar eða er hér verið að gera upp á milli fyrirtækja?

Nú treysti ég því, herra forseti, að hæstv. utanrrh. geti komið með einhver svör eða sagt okkur meira af því sem gerst hefur í herbúðum hæstv. ríkisstjórnar varðandi þessi mál, þ.e. nákvæmlega um það hvernig íslensk stjórnvöld sjá þetta allt saman fyrir sér á næstu árum.

Varðandi framtíðarsýnina er eðlilegt að spurt sé: Hvernig sjá íslensk stjórnvöld fyrir sér að þau geti árið 2005 lagt fyrir skrifstofu samningsins marktæka áætlun um það hvernig við ætlum að standa við þessar skuldbindingar? Við skulum ekki gleyma því, herra forseti, að samkvæmt Kyoto-bókuninni eigum við, öll löndin sem eru í Annex I, að vera farin að sýna mælanlegan árangur árið 2005. Þá eigum við að vera farin að sýna að við séum á réttri leið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Hvernig ætla íslensk stjórnvöld að sýna fram á það 2005? Það er ekki langt í það ártal.

Herra forseti. Kann kannski að vera að íslensk stjórnvöld þurfi bara ekki að gera neitt til að geta staðið við allar skuldbindingarnar? Eru íslensk stjórnvöld e.t.v. bara fullkomlega afslöppuð í þessu máli þar sem þau fengu heimild til að auka losun um 10%, ein þjóða sem fékk svo háa losunarheimild samkvæmt Kyoto-bókuninni, og með 1,6 millj. tonnunum sem þau fengu í Marrakesh? Er málið bara þannig vaxið að íslensk stjórnvöld þurfa ekki að leggja neitt af mörkum?

Herra forseti. Það er eðlilegt að leitað sé svara í umræðunni við þessari spurningu því að hér er um afskaplega flókin reikningsdæmi að ræða. Þó að hv. umhvn. hafi fengið til skrafs og ráðagerða starfsfólk úr umhvrn. er sannleikurinn sá að hér er um það flókin mál að ræða að við eigum eftir að fá að heyra og sjá meira til þess að við trúum því í alvöru að íslensk stjórnvöld ætli sér að leggja eitthvað af mörkum til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu.

Herra forseti. Ég sé að tíma mínum er lokið. Ég geri ráð fyrir að við fáum frjóa umræðu og treysti því að hæstv. utanrrh. geti bætt hér um betur, bætt við upphafsræðu sína, og kem svo sjálf til með að hafa tækifæri á síðari ræðu.