2002-04-09 21:53:03# 127. lþ. 115.20 fundur 684. mál: #A aðild að Kyoto-bókun við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# þál. 13/127, JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[21:53]

Jón Bjarnason (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst þessi útúrsnúningur hæstv. utanrrh. heldur ekki vera boðlegur. Ég rakti m.a. hvernig skipan atvinnumála hér á landi stuðlaði að því að auka flutningskostnað, að auka flutninga sérstaklega á landi. Flutningar eru færðir upp á land, og það þýðir aukna losun á koltvísýringi, með því að reka þannig fiskveiðistjórnarstefnu að fiskur er fluttur landveg landshorna á milli. Þessa nálgun er ég að gagnrýna, virðulegi forseti. Ég er líka að gagnrýna það að stefnumörkun á sviði orkumála sé ekki sett inn í lagatexta frv. um samgönguáætlun í samræmi við stefnuyfirlýsingu og skuldbindingar ríkisstjórnarinnar.

Það er alveg sjálfsagt og alveg rétt hjá hæstv. utanrrh. að við Íslendingar erum mjög háðir samgöngum og bílum og notkun á eldsneyti. En það er ekki þar með sagt að við séum háðir því að nota endilega dýrustu bílana eða bílana sem nota dýrasta eldsneytið og mest af því. Það mætti huga að ákveðinni pólitík í þeim efnum með skattlagningu á þá bíla sem nota mest eldsneyti og eru kannski bara helst notaðir af efnamesta fólkinu. Við getum kannski stýrt skattlagningu á bíla þannig. Að sjálfsögðu verðum við að treysta á bílinn við samgöngur. En við getum ekki á þeim grundvelli vikið okkur undan þeirri ábyrgð að stefnumörkunin er að draga úr koltvísýringslosun og halda henni í lágmarki.