2002-04-09 22:20:48# 127. lþ. 115.21 fundur 685. mál: #A samningur milli Íslands og Færeyja um fiskveiðar innan íslenskrar og færeyskrar lögsögu 2002# þál. 19/127, utanrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[22:20]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir máli sem hefur komið fyrir hv. Alþingi mjög lengi sem varðar heimildir Færeyinga til veiða innan íslenskrar landhelgi og Íslendinga til veiða innan færeyskrar lögsögu. Samkvæmt þeim samningi munu aðilar semja fyrir 20. júní nk. um veiðiheimildir færeyskra nótaskipa á loðnuvertíðinni sem stendur frá þeim degi til apríl 2003. Er eins og í samningi landanna frá því í fyrra við það miðað að það verði 30.000 lestir og síðan er gert ráð fyrir að færeyskum skipum sé heimilt á loðnuvertíðinni 2002--2003 að veiða allt að 10.000 lestum af loðnu innan íslenskrar lögsögu. Auk þess er gert ráð fyrir heimildum til kolmunnaveiða, gagnkvæmra, í landhelgi landanna. Og loks er gert ráð fyrir að íslensk skip hafi heimild til að veiða allt að 1.300 lestum af makríl og 2.000 lestum af síld innan færeyskrar lögsögu á þessu ári, af annarri síld en þeirri norsk-íslensku, en við höfum heimildir til þess að veiða í færeyskri lögsögu úr þeim stofni.

Ég veit að þessi tillaga er hv. þingmönnum mjög kunnug og legg til að henni verði að lokinni umræðu vísað til hv. utanrmn.