Steinullarverksmiðja

Þriðjudaginn 09. apríl 2002, kl. 23:55:36 (7406)

2002-04-09 23:55:36# 127. lþ. 115.42 fundur 663. mál: #A steinullarverksmiðja# (sala á eignarhlut ríkisins) frv. 57/2002, iðnrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 115. fundur, 127. lþ.

[23:55]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar fyrstu spurninguna, þá er það svo eins og sjá má í greinargerðinni að í samkomulagi sem gert verður við sölu er þess getið í e-lið að kaupandi gefi skriflega yfirlýsingu um þá ætlun sína að halda áfram rekstri félagsins á Sauðárkróki. (Gripið fram í.) Það má vel vera að þetta skipti engu máli eins og kom fram í ræðu eins af þeim hv. þm. sem tóku til máls, en engu að síður finnst mér þetta skipta máli.

Eins það sem ég nefndi að verði af því að fjármagn verði veitt til þess að flýta framkvæmdum yfir Þverárfjall, þá er það liður í því að lækka flutningskostnað og það styrkir stöðu verksmiðjunnar þar sem hún er staðsett í dag.

Hvort ég óttaðist ekki fordæmi hvað það varðar að í þriðja skipti núna, með samþykkt þessa frv., sé ákveðnum hluta fjármagns varið til uppbyggingar í héraði þegar fyrirtæki eru seld, þá undrast ég það mjög ef hv. þingmenn sem oft tala fyrir byggðastefnu og framlögum til byggðamála geta ekki samglaðst þegar ákvarðanir sem þessar eru teknar vegna þess að það hlýtur að skipta máli. Og mér þótti vænt um að heyra hv. þm. Steingrím J. Sigfússon segja áðan að Orkubú Vestfjarða hefði verið keypt á ríflegu verði því ég hef ekki heyrt hann áður samþykkja það eða viðurkenna að svo hafi verið. Ég er alveg sammála honum um að Orkubú Vestfjarða var keypt á ríflegu verði og það var byggðaaðgerð þannig að oft er ríkisstjórnin að reyna að leggja sig fram um að standa sig í byggðamálum.