Afbrigði

Miðvikudaginn 10. apríl 2002, kl. 10:57:51 (7423)

2002-04-10 10:57:51# 127. lþ. 116.94 fundur 498#B afbrigði# (afbrigði við dagskrá), SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 116. fundur, 127. lþ.

[10:57]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og ég lýsti í umræðum um störf þingsins teljum við þetta ótæk vinnubrögð að hér skuli hent á borð þingmanna dag eftir dag fleiri en einu og fleiri en tveimur stórmálum og síðan ætlast til þess að þingmenn gangi til umræðna um þau svo til fyrirvaralaust og undirbúningslaust. Það er ekki að ástæðulausu að innibyggðir eru í þingsköpin ákveðnir frestir til þess að þingmenn geti skoðað mál og tekið þátt í umræðum um þau sæmilega undir það búnir.

Ef ég man rétt, þá var verið að dreifa þeim tveimur málum sem nú á að fara að greiða atkvæði um, fyrst 37. og síðan 38. dagskrármálinu undir kvöld í gær ef ekki beinlínis eftir kvöldmat. Þá komu þessi mál glóðvolg úr ljósritunarvélunum. Annars vegar er um það að ræða að umbylta öllu stjórnhverfi umhverfismála og hins vegar er hin umdeilda ríkisábyrgð sem væntanlega verður á skuldabréfaútgáfu deCODE genetics, amerísks fyrirtækis. Við mótmælum þessum vinnubrögðum, herra forseti, og ég greiði atkvæði gegn því að afbrigði séu veitt við þessar aðstæður.