Ófrjósemisaðgerðir 1938--1975

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 14:48:58 (7638)

2002-04-17 14:48:58# 127. lþ. 120.1 fundur 388. mál: #A ófrjósemisaðgerðir 1938--1975# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., heilbrrh.
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 127. lþ.

[14:48]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég vil þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um skýrsluna sem nú liggur fyrir. Ég vil endurtaka að ég hef gert ráðstafanir í samráði við höfund skýrslunnar til að kanna tiltekin atriði hennar betur. Ég vil einnig taka eitt atriði út úr sem rætt var sérstaklega, þ.e. um lagaákvæði sem í gildi eru um afkynjanir og hvort breytinga á þeirri lagasetningu sé að vænta hjá okkur.

Ég get sagt það eitt í því að þau lög sem eru í gildi núna varðandi þessi mál verða skoðuð í tengslum við vinnuna við þessa skýrslu og framhaldsvinnuna sem í hefur verið farið. Hitt vil ég þó taka fram að lagaákvæðum um afkynjanir hefur ekki verið beitt á síðari árum. Það verður auðvitað að horfa á þessi lagaákvæði í tengslum við umhverfið sem við lifum í nú, eins og fram kom í umræðunni áðan. Núorðið eru ströng ákvæði í gildi um persónuvernd, um mannréttindi og umhverfið hefur breyst að þessu leyti. Eigi að síður þurfum við að skoða þau ákvæði sem eru í gildi varðandi þessi mál.

Við ætlum okkur að hafa þennan málaflokk til umfjöllunar áfram. Ráðning höfundar skýrslunnar er þáttur í að þessi mál komi til skoðunar í heilbrrn. og þessi ákvæði koma auðvitað til skoðunar í tengslum við þá vinnu.

Ég held að ég lengi þessa umræðu ekki meira. Ég tel að hún hafi verið gagnleg og ég endurtek þakkir mínar til þeirra sem hafa tekið þátt í henni.