2002-04-17 15:22:45# 127. lþ. 121.20 fundur 660. mál: #A öryggisráðstafanir lögreglunnar í tengslum við fund utanríkisráðherra NATO# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., SJóh
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[15:22]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Hæstv. forseti. Ég verð að viðurkenna hér og nú að mér þótti það furðuleg fífldirfska af íslenskum yfirvöldum að bjóða Ísland fram undir þennan fund NATO í maí í ljósi þeirra atburða sem orðið hafa erlendis vegna þeirra sem hæstv. dómsmrh. kallaði hér friðarspilla og hafa ferðast á milli slíkra samkoma og sett allt á annan endann. Ég sé ekki hvað getur varið okkur hér gegn því að þessi hópur komi. Ég óttast ekki innlenda mótmælendur. Þeir mótmæla venjulega mjög friðsamlega. En ég satt að segja óttast þetta fólk sem gæti komið frá útlöndum.

Þegar lögreglan er nú við æfingar farin að leika óeirðaseggi þá er ekki von að vel fari. Þeim er sjálfsagt ýmislegt tamara. En bara þetta atriði að það stendur að stranglega skuli tryggja öryggi hlýtur (Forseti hringir.) að kalla á gríðarlegan kostnað og ég er alveg sannfærð fyrir mitt leyti um að þeir peningar sem eru til þessa ætlaðir á fjárlögum muni ekki duga.