Heyrn skólabarna

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 15:59:20 (7664)

2002-04-17 15:59:20# 127. lþ. 121.5 fundur 695. mál: #A heyrn skólabarna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[15:59]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég þakka ráðherra fyrir þau svör sem hér komu, þó að þau séu auðvitað afar takmörkuð sakir þess að hann fjallaði einungis um þau börn sem eru það alvarlega heyrnarskert að þau nota heyrnartæki.

Sannarlega er það svo að stór hópur barna er hér í skólakerfinu rétt eins og annars staðar, og ég vitnaði þar í erlendar rannsóknir, sem er með heyrnardeyfu sem er hamlandi í námi og verður þess valdandi að þau börn, miðað við þær rannsóknir sem fyrir liggja, nýta sér ekki það sem fram fer með fullnægjandi hætti. Ljóst er að skólahjúkrunarfræðingar mæla heyrn skólabarna og geta gefið kennurum ákveðnar upplýsingar og ráðleggingar. Upplýsingar þeirra liggja greinilega ekki fyrir hjá Heyrnar- og talmeinastöð og væri sjálfsagt og eðlilegt að bæta úr því og væntanlega er það þá meðal þeirra hlutverka sem stöðin hefur í framtíðinni að safna saman ítarlegri upplýsingum.

En ég vil vísa til þess, herra forseti, að þessi fyrirspurn mín tengist annarri fyrirspurn sem ég verð með síðar í dag til hæstv. menntmrh. varðandi niðurfellingu gjalda af rafmagnshljóðmagnarasettum til kennslu í skólum vegna þess að rannsóknir hafa sýnt að slíkt magnarakerfi dregur ekki bara úr álagi á rödd kennara heldur heyra börnin betur og slíkt kerfi kemur heyrnarskertum börnum sérstaklega til góða. Þetta hefur þegar verið kannað í íslenskum skólum og liggur fyrir en ekki hefur fengist áheyrn hjá stjórnvöldum varðandi úrbætur þar að lútandi. Þetta er kannski lausn sem er frekar beint að börnum sem vegna eyrnabólgu eða annars eru með heyrnardeyfu án þess þó að þurfa hjálpartæki á borð við heyrnartæki.

En ég vænti þess, herra forseti, að í framtíðinni verði auðveldara fyrir þá hæstv. heilbrigðisráðherra sem þurfa á þessu að taka að nálgast upplýsingar og að þær liggi þá fyrir aðgengilegri en virðist vera í dag.