Gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:17:30 (7694)

2002-04-17 19:17:30# 127. lþ. 121.21 fundur 712. mál: #A gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð# fsp. (til munnl.) frá iðnrh., iðnrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:17]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Svarið er eftirfarandi:

Í ágúst árið 2000 barst umhvrn. yfirlýsing frá níu náttúruverndar- og útivistarsamtökum þar sem þess var farið á leit að stjórnvöld beittu sér fyrir því að verndar- og útivistargildi svæðisins norðan Vatnajökuls yrði metið með faglegum hætti. Þar var bent á að mat á gildi þjóðgarðs norðan Vatnajökuls sem hluta af fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði þyrfti að fara fram, bæði fyrir atvinnulíf og náttúruvernd svæðisins. Umhvrn. ritaði iðnrn. bréf í september þar sem það álit ráðuneytisins kom fram að það teldi erindi þetta tengjast vinnu á vegum rammaáætlunar um virkjun vatnsafls og jarðvarma og óskaði eftir því að iðnrn. kannaði hvort og þá með hvaða hætti verkefnisstjórn rammaáætlunar gæti tekið á þeim þáttum sem nefndir voru í yfirlýsingunni.

Verkefnisstjórn taldi sig geta lagt til efni og upplýsingar vegna vinnu sinnar sem komið gætu að gagni við að leggja mat á gildi þessa lands. Var gerð sérstök verklýsing um verkefni sem staðfest var af iðnrh. í desember. Verkið fólst einkum í að meta útivistargildi og verndargildi svæðisins með hliðsjón af þróun ferðamennsku og ferðaþjónustu og hugmyndum um uppbyggingu á nauðsynlegri þjónustu.

Verkefnisstjórn fól sérstakri umsjónarnefnd að stýra verkinu undir formennsku forstjóra Náttúruverndar ríkisins sem lagði einnig til starfsmann. Vinna þessi dróst nokkuð á langinn af ýmsum ástæðum og umsjónarnefndin skilaði drögum og skýrslu til verkefnisstjórnar í september 2001 er bar heitið ,,Mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð``. Lauk þá umsjónarnefndin störfum sínum fyrir verkefnisstjórn. Þá vann Þjóðhagsstofnun einnig sérstaka skýrslu fyrir verkefnisstjórn sem bar heitið ,,Efnahagslegt umfang þjóðgarðs norðan Vatnajökuls`` þar sem fjallað var um hinn hagræna þátt þjóðgarðs, ferðamennsku á svæðinu með og án Kárahnjúkavirkjunar.

Upp úr þessum gögnum og að fengnu áliti nokkurra sérfræðinga vann síðan verkefnisstjórn sérstaka samantekt og skilaði áliti sínu til mín 9. október 2001, en umhvrn. fékk samrit af svari verkefnisstjórnar. Í kjölfarið var fulltrúa þeirra samtaka er óskuðu eftir þessari vinnu send niðurstaða verkefnisstjórnar.

Af ofansögðu má sjá að umsjónarnefndin, sem fyrirspurnin fjallar um, var aðeins vinnuhópur á vegum verkefnisstjórnar sem vann hluta þess verkefnis sem umhverfisverndarsamtök höfðu farið fram á að unnið yrði.

Hvað meðferð þessa máls varðar hefur verið tekið tillit til þeirra sjónarmiða er fram hafa komið við þessa vinnu í störfum faghópa rammaáætlunar. Og af hálfu verkefnisstjórnar hefur verið litið á þessi gögn sem undirgögn sem mat og flokkun hennar styðst við.

Síðari fyrirspurnin er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Er fyrirhuguð sérstök kynning á skýrslu nefndarinnar eða útgáfa hennar og tengdra gagna?``

Svo er ekki frekar en gert hefur verið. Eins og ég hef þegar sagt fengu þeir sem óskuðu eftir þessari vinnu öll gögn í hendur fyrir um hálfu ári. Því var ekki talin ástæða af hálfu verkefnisstjórnar eða ráðuneytis til að gefa þessi gögn sérstaklega út. Hins vegar gæti komið til álita, þegar niðurstöður fyrsta hluta rammaáætlunarinnar liggja fyrir, að gefa út þessi gögn ásamt niðurstöðum og öðrum gögnum sem stuðst hefur verið við í starfi verkefnisstjórnar og faghópa. Sem stendur hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um það.