Þingsályktun um verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 10:36:24 (7715)

2002-04-18 10:36:24# 127. lþ. 122.91 fundur 517#B þingsályktun um verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[10:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég ítreka það sem fram hefur komið að ég hef svo sannarlega ekkert á móti því nema síður sé að Alþingi samþykki tillögu af þessu tagi og tel sjálfsagt auðvitað að fara eftir vilja Alþingis í þeim efnum eins og ber að gera. En bæði við lagasmíð og ályktunartillögur verður texti að vera þannig úr garði gerður að hann skýri sig sjálfur, ekki þurfi að leita í umræður eða annað þess háttar til að texti sé skiljanlegur.

Okkur var reyndar kennt það í lagadeildinni á sínum tíma að menn ættu gjarnan að leita í lögskýringargögn, greinargerðir, ummæli einstakra ráðherra, fagráðherra í hverju tilviki eða formanns nefndarinnar ef menn væru í miklum vafa. Út af fyrir sig eru þetta hjálpargögn en tilhneigingin í lögfræði í hinum vestræna heimi er núna sú að gera verði kröfu til þess að lagatextinn sé skýr þannig að allur almenningur sem ekki hefur aðgang að þessum hlutum og á að horfa á lagatextann láti það nægja þó að dómstólar geti í einhverjum tilvikum horft á leiðbeinandi hluti. Þessi texti var ekki nægilega skýr, hann var óljós, og reyndar eftir minni meiningu og annarra sem hafa skoðað hann ekki heil brú í honum þannig að það er nauðsynlegt að laga hann og þá verður sjálfsagt farið eftir þessu. Ég vona að við getum bara gert það fyrir þinglok. Það er fullur vilji, eins og forseti þingsins nefndi, hjá öllum að taka þátt í að lagfæra það.