Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 14:42:35 (7794)

2002-04-18 14:42:35# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[14:42]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Er það virkilega svo að hv. efh.- og viðskn. hafi ekki kallað eftir upplýsingum um hvað það að leggja niður þessa stofnun mundi spara í framtíðinni? Er það virkilega svo að ef einhverjir hætta vegna þess að þeir sætti sig ekki við nýtt starf og þarf að borga þeim biðlaun þá eigi að ráða í staðinn fyrir þá? Er það virkilega svo að menn ætli að halda starfsmannafjöldanum óbreyttum, jafnvel þótt verið sé að setja menn inn í nýjar stofnanir þar sem fyrir er fólk með svipaða hæfileika sem vinnur svipuð verk, að enginn sparnaður komi fram neins staðar?

Ég hefði talið að hægt væri að sleppa því að ráða starfsmenn í staðinn fyrir þá sem hætta og nýta sér biðlaunarétt sinn. Þannig kæmi fram sparnaður. Ég hefði talið að með tímanum, með því að ráða ekki í stöður þeirra sem hætta, mætti líka ná fram sparnaði. Ég hefði talið eðlilegt að hv. efh.- og viðskn., þegar hún fjallaði um þetta mál, kallaði til sérfræðinga til að leiða í ljós hversu mikill þessi sparnaður yrði.