Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 17:28:42 (7801)

2002-04-18 17:28:42# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÖS (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[17:28]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Það hefur enginn sóma af því að tala um dylgjur í sinn eigin garð og dylgja síðan um framferði annarra. Það var ekki hægt að skilja hæstv. forsrh. hér áðan öðruvísi en svo að ég hefði einhverju sinni í viðtali, í ræðu eða einhvers staðar --- ég skildi ekki af máli hans hvar það hefði verið --- sagt að sú ákvörðun sem hæstv. forsrh. er ábyrgur fyrir, þ.e. að leggja fram þetta frv. um að leggja af Þjóðhagsstofnun, hafi verið ákveðin í æðiskasti. Herra forseti. Þetta hef ég aldrei sagt, aldrei látið að því liggja.

Hæstv. forsrh. er skáld gott og ber gott skyn á rím. Það er samt sitt hvað, æði eða bræði. Ég hef starfað með hæstv. forsrh. og veit að hann er bráður. Ég hef aldrei sagt að hann sé óður. Ég hef heldur aldrei sagt að þennan gerning hafi hann ákveðið í æðiskasti. Og mér finnst mikilvægt að það komi fram, herra forseti.