Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 18:31:55 (7807)

2002-04-18 18:31:55# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að drepa á því sem hæstv. forsrh. sagði varðandi þá möguleika sem þingið ætti að hafa til þess að verða sér úti um einhvers konar liðsinni á sviði hagfræði.

Ég er auðvitað staddur í ákveðnum veruleika og ég geri mér alveg grein fyrir því hvernig hann er. Ég sé það alveg og veit að hæstv. ríkisstjórn ætlar sér að gera frv. að lögum og meiri hlutinn hlýtur að ráða og á að ráða. Ég er mótfallinn frv. og ég hef skýrt hvað það er sem mér finnst verst við það. Það sem mér finnst verst við það sem þingmanni hérna er að ég á ekki lengur kost á því að fá hlutlausa ráðgjöf.

Ég spurði hæstv. forsrh. hvaða afstöðu hann hefði til þess viðhorfs að til þingsins yrðu þá ráðnir hagfræðingar, einn eða fleiri eftir atvikum, til að veita okkur það liðsinni. Hæstv. forsrh. svaraði því til að hann gerði engar athugasemdir við það en ég er auðvitað að spyrja hæstv. forsrh. ekki sem forsrh. heldur sem atkvæðamann hér í þinginu sem hefur mikil völd innan annars stjórnarflokksins hvort hann sé reiðubúinn til að veita liðsinni sitt til þess að þetta verði að veruleika. Og ég er út af fyrir sig sáttur við þau svör sem hæstv. forsrh. hefur veitt mér í þeim efnum.

En hitt vil ég líka segja að ég er fyllilega til viðtals um það fyrirkomulag sem hæstv. forsrh. nefndi hérna að gerður yrði samningur við Hagfræðistofnun Háskóla Íslands um ákveðið liðsinni, ákveðna ráðgjöf sem þingið ætti kost á að njóta, kannski ekki síst við í stjórnarandstöðunni, og það er alveg rétt sem hann segir að þetta er árstíðabundið. Ég segi það t.d. sem fyrrv. fjárlaganefndarmaður að það er ákaflega erfitt á köflum fyrir þá sem ekki hafa sérmenntun á sviði fjármála og hagfræði að starfa þar og eiga að brjóta til mergjar t.d. þjóðhagsáætlun og koma á skömmum tíma með pólitísk viðhorf og stefnu gagnvart slíkum gögnum. Við höfum að vísu fengið að njóta aðstoðar eins starfsmanns Ríkisendurskoðunar en samningur af þessu tagi er eitthvað sem ég tel að við ættum að skoða í framtíðinni.