Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 21:36:37 (7821)

2002-04-18 21:36:37# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[21:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hélt því fram að það hefði komið fram í mörgum ræðum að hér hefði verið illa að málum staðið. Það breytir ekki nokkru þó að menn endurtaki sama hlutinn aftur og aftur. Þeir verða ekki réttir við það. Það hefur verið unnið afar vel og faglega að þessum málum, þvert ofan í það sem hv. þm. hélt fram, ekki með neinum rökum, að hér hefði ekki verið faglega að málum unnið.

Það var líka sagt að ekki hefði verið haft samstarf við starfsfólk þessarar stofnunar. Það er ekki rétt. Auðvitað var haft samstarf við starfsfólk þessarar stofnunar. Því er ekki að leyna að það var andvígt þessum breytingum en það er ekki þess að taka ákvörðun um það hvort stofnun af þessu tagi er lögð niður eða ekki, það er annarra að taka ákvörðun um það. En það var haft samstarf og samráð við starfsfólkið um þessi atriði.

Ekki faglega unnið að málinu, sagði hv. þm. Hverjir unnu að þessu af hálfu ráðuneytisins? Það var Ólafur Davíðsson ráðuneytisstjóri, Hallgrímur Snorrason hagstofustjóri og Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri. Hinir tveir fyrstnefndu, hvað hafa þeir unnið áður í slíkum störfum fyrir utan almenna reynslu og þekkingu sem menn viðurkenna almennt? Báðir þessir menn voru aðstoðarforstjórar --- hvaða stofnunar? Þjóðhagsstofnunar. Þeir þekkja afar vel til innviða stofnunarinnar, sennilega betur en flestir aðrir menn. Það er auðvitað algjörlega rangt og fráleitt að halda því fram að hér hafi ekki verið faglega unnið.

Það sýnir einnig vanþekkingu hv. þm. er hún sagði að þingmenn hefðu getað fengið þjónustu hjá Þjóðhagsstofnun og það hafi ekki kostað neitt. Heldur þingmaðurinn að það hafi ekki kostað neitt? Það var auðvitað greitt úr ríkissjóði. Það kostar. Það kostar ekkert minna þar en hjá háskólanum. Það þarf að greiða þetta með öðrum hætti en allt kostar þetta sitt. Starfsfólkið er á launum og það kostar að veita slíka þjónustu. Menn halda að þegar ríkið vinnur eitthvað þá kosti það ekki neitt. Það kostar menn nákvæmlega það sama og hjá Hagfræðistofnun Háskólans, fyrir utan það að rukkunin bara sést, það blasir við manni. En auðvitað kostar það nákvæmlega jafnmikið hjá stofnunum ríkisins að veita slíka þjónustu.