Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 10:09:56 (7965)

2002-04-20 10:09:56# 127. lþ. 124.22 fundur 672. mál: #A nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu# (breyting ýmissa laga) frv. 76/2002, ÖS
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:09]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að bæta miklu við þetta. Það er orðinn plagsiður hér hjá hv. þm. Ögmundi Jónassyni að ævinlega þegar eitthvað kemur fyrir þingið sem varðar Evrópska efnahagssvæðið, ég tala nú ekki um Evrópusambandið, að hv. þm., ég segi ekki að hann umhverfist en hann alla vega sýnir aðeins á sér ranghverfuna og fer jafnan að tala um að það hafi einungis verið þingmenn Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs sem hafi náð því að vekja eftirtekt á þessum raforkumálum.

Ástæðan er auðvitað sú að aðrir í þinginu eru þeirrar skoðunar að með réttu lagi séu þessar breytingar þess eðlis að það sé alveg fyllilega tímabært og eðlilegt að ræða þær hér í þinginu. En ég ætla ekki að elta ólar við hv. þm. um það. Ég reyni einungis að biðja hann um að stilla skap sitt þegar minnst er á Evrópusambandið og Evrópska efnahagssvæðið. Ég minni á að hv. þm. Ögmundur Jónasson kemur núna upp og mér finnst hann vera farinn að breyta afstöðu sinni til Evrópska efnahagssvæðisins. Ég segi ekki að hann sé farinn að lyfta höndum af fögnuði þegar á það er minnst. En hann er þó farinn að tala um ýmis tæknileg atriði sem við þurfum að grípa til í þeim efnum að geta staðið við ýmsar okkar gerðir.

Í framhaldi af þessu má kannski rifja upp umræðu sem varð hér milli mín og hans og hv. 1. þm. Norðurl. e., Halldórs Blöndals. Reyndar var það hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir sem tók þátt í því hér í gær. Þá benti einmitt hv. þm. Halldór Blöndal á það varðandi ýmsa þá gerninga sem verið er að samþykkja af Evrópusambandinu að það tekur óratíma fyrir hin stóru ríki úti í Evrópu að setja þá í lög, en við hér hins vegar hlaupum alltaf strax til.

Ég er ekki að mæla með því að menn tefji það úr hófi fram. Hins vegar eru ýmis lög einfaldlega þess eðlis að það er stundum umhendis að skilja hvaða erindi þau eiga inn í íslenska löggjöf. --- Er ég búinn með tímann minn?

(Forseti (GuðjG): Nei. Hv. þm. hefur ótakmarkaðan tíma. Þetta var ekki andsvar. Þetta var ræða og var kynnt sem ræða og hv. þm. mál tala eins lengi og hann vill.)

Ég þakka hæstv. forseta fyrir skörulega íhlutun (Gripið fram í: ... bara að þingmaðurinn geri það.) fyrir mína hönd. En það sem ég vildi segja var að ég var að rifja hér upp ýmsum þingmönnum til mikillar gleði væntanlega að ég var seint á síðustu öld ráðherra í ríkisstjórn og mér þótti stundum skelfilegt að þurfa að þvinga sjálfan mig til þess að leggja fram ákveðna gerninga sem mér fannst ekkert erindi eiga inn í íslenska löggjöf. Ég nefni þetta vegna þess að hv. þm. Ögmundur Jónasson virtist ánægður yfir því að menn hefðu fundið einhverjar leiðir til þess að friðþægja og jafnvel friðmælast við þá sem eru að reka með svipum á eftir slíku úti í Evrópu. Finnst mér nú þá að menn séu farnir að tala einhvern veginn allt öðruvísi en ég átti von á.

Herra forseti. Varðandi þetta frv. eða þær brtt. sem hér liggja fyrir vildi ég segja það eitt að mér finnst alveg með ólíkindum að það skuli þurfa svona viðamiklar breytingar af hálfu nefndarinnar. Ég segi þetta síst til þess að lasta hv. nefnd, síður en svo. Þetta sýnir bara að hún hefur unnið sitt verk ákaflega vel. En maður hlýtur auðvitað að spyrja um vinnubrögð þeirra sem leggja frv. af þessu tagi fram. Hér er sko ekki um neinar smábreytingar að ræða. Þegar hlaupið er á þessu þá sýnist mér að hér sé a.m.k. um verulega miklar breytingar að ræða í ýmsum greinum þó að töluvert sé af orðalagsbreytingum og slíku.

Mætti ég svo spyrja hv. þm. Sigríði Önnu Þóraðardóttur framsögumann, af því að mér sýnist að hún hafi þegar kvatt sér hljóðs. Það er örsmátt mál. Hvað veldur því að lagt er til að þessi lög öðlist strax gildi en í frv. er einungis talað um 1. júní? Hvaða nauðir reka til þess?