Nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 10:16:22 (7967)

2002-04-20 10:16:22# 127. lþ. 124.22 fundur 672. mál: #A nýr stofnsamningur Fríverslunarsamtaka Evrópu# (breyting ýmissa laga) frv. 76/2002, ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[10:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég er alveg viss um að sitthvað af slíkri tilhögun í raforkumálum er aðfinnsluvert. Sumt hentar okkur ekki. En ég held að hinir stóru drættir séu þess eðlis að í framtíðinni muni þeir ekki vera mjög neikvæðir fyrir íslenskt efnahagslíf. En það er nú kannski ekki það sem skiptir öllu máli, engar tímanlegar nauður reka hratt á eftir því máli.

Ég hjó eftir því að hv. þm. Ögmundur Jónasson taldi að við hefðum getað komist undan þessu. Ég er ekkert að rengja það en það kemur mér svolítið á óvart, eða er það virkilega þannig að hv. þm. telur að í svona stóru máli hefðum við getað komist hjá því að framfylgja því?

Ég geri mér grein fyrir því að þegar menn eru aðilar að samningi þá öðlast þeir ávinning og réttindi vegna samningsgerðarinnar en þeir þurfa líka stundum að taka á sig ýmsa hluti sem eru miður góðir, sem okkur kann að þykja neikvætt. Það er eðli samninga, menn gefa eitthvað frá sér og menn vinna eitthvað í staðinn. Þetta vildi ég segja í tilefni af þessu.

En að öðru leyti fannst mér samt, herra forseti, sem hv. þm. væri örlítið að vitkast að því er varðar Evrópska efnahagssvæðið. Mér fannst hann skilja að það væri ekki að öllu leyti vont, hann hefði nú skilning á því að ýmislegt jákvætt hefði frá þeim samningi stafað. Samt sem áður er það þannig að hv. þm. er enn þá á árinu 2002 þeirrar skoðunar að samningurinn sé ekki góður. Það finnst mér dálítið dapurlegt því að fjöldamargar skýrslur hafa verið gerðar þar sem sýnt er fram á að góðæri og velsæld síðustu ára er ekki síst undan þeim samningi runnið.

Hitt var svo fróðlegt að heyra, að hv. þm. sagði að við Íslendingar værum ekki lengur í sömu færum og áður með að gera tvíhliða samninga við Evrópusambandið. Það finnst mér alveg prýðilegt að hv. þm. skilji. Af hverju finnst mér það gott? Vegna þess að stefna stjórnmálaflokks hans er að hafa tengslin við Evrópu með þeim hætti.