Réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 12:01:39 (7998)

2002-04-20 12:01:39# 127. lþ. 124.35 fundur 629. mál: #A réttarstaða starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum# (EES-reglur, heildarlög) frv. 72/2002, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[12:01]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Annars vegar tel ég gæta þess misskilnings hjá hv. þm. þegar hann heldur því fram að það gæti í nokkru tilviki tekið rétt af sjómönnum að falla undir þessi lög og þessa tilskipun. Eðli þessa frv. er ekki slíkt að það upphefji ákvæði annarra laga eða taki af mönnum einhvers staðar rétt sem þeir hafa á öðrum grundvelli en þeim sem lögin taka til, sem er fyrst og fremst kjarasamningar og ráðningarsamningar, þ.e. ráðningarsambandið milli launamanns og vinnuveitenda.

Ætlunin með frv. er að festa í sessi að við aðilaskipti skuli þessi réttindi yfirfærast eins og þau standa á þeim degi, í gegnum ráðningarsamband viðkomandi launamanns við vinnuveitanda sinn. Þetta hróflar ekki við öðrum réttindum.

Ég held að hitt sé misskilningur. Þetta gæti aldrei orðið annað en réttarbót fyrir sjómenn, að svo miklu leyti þá sem þetta hefur áhrif. Það kann vel að vera að þetta mundi ekki færa þeim mikið til viðbótar. Ég hygg þó að það gæti vel gert það í ákveðnum tilvikum.

Hitt atriðið, varðandi 10% atvinnuleysi í Evrópusambandinu og hvort ég vilji það. Nei, ég vil ekki 10% atvinnuleysi svo hv. þm. hafi það algjörlega á hreinu. Ég vil helst ekkert atvinnuleysi, ekki einu sinni það sem hægri sinnaðir hagfræðingar kalla hæfilegt atvinnuleysi. Fari það og veri. Ég tel það grundvallarmannréttindi að menn hafi vinnu og geti framfleytt sér eftir því sem möguleiki er á að koma slíku við.

Ég tel hins vegar ekki að það eigi að stilla þessu upp þannig að það séu ósættanlegar andstæður, þ.e. full atvinna í einu landi og góð réttindi launamanna. Þvert á móti. Það má snúa dæminu algjörlega við og segja: Einmitt til þess að hafa ánægt starfsfólk, öruggt um sinn hag, þarf það að vera vel verndað og njóta réttinda.