Skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins

Laugardaginn 20. apríl 2002, kl. 19:13:10 (8059)

2002-04-20 19:13:10# 127. lþ. 124.65 fundur 729. mál: #A skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins# (krókaaflamarksbátar) frv. 88/2002, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 124. fundur, 127. lþ.

[19:13]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við fjöllum hér um frv. til laga um breytingu á lögum nr. 24/1986, um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Ég þarf í sjálfu sér litlu við það að bæta sem hér hefur komið fram hjá hv. tveimur fyrri ræðumönnum. Málið er flutt af meiri hluta sjútvn. og hefur þar fengið mjög litla umfjöllun. Þegar forsvarsmenn Landssambands smábátaeigenda komu á fund nefndarinnar lýstu þeir sig andvíga þessum breytingum. Ég tel að nefndin hafi ekkert velt fyrir sér eða fengið yfirlit yfir afleiðingar þessara breytinga, að gefa stækkunarmöguleika frá 6 tonnum og upp í 15.

Fimmtán tonna bátur er orðinn afkastamikil fleyta sem eflaust mun kalla á að menn vilji fá möguleika á að fara í öðruvísi veiðar, þ.e. séu menn komnir með slík tæki í hendur. Eins og getið er um í frv. er lagt til að heimilt verði að veita bátum, allt að 15 brúttótonnum, leyfi til að veiða í atvinnuskyni með krókaaflamarki. Til þessa, eins og kunnugt er, hefur slík veiði verið bundin við báta undir 6 tonnum.

Virðulegi forseti. Ég þarf ekki að hafa um þetta mörg orð en tek undir þau sjónarmið að nauðsynlegt væri að kalla aðila til umfjöllunar um málið milli umræðna í hæstv. sjútvn., fjalla um málið og leggja niður fyrir sér hvaða afleiðingar málið gæti haft. Við verðum að sjá fyrir okkur til hvers svona breytingar muni leiða.

Eins og getið er um í lok grg. þykir rétt að krókaaflamarksbátar, þó þeir verði allt að 15 brúttótonn að stærð, teljist til Landssambands smábátaeigenda. Það er einvörðungu getið um að frv. sé ætla að tryggja það. Við höfum ekki haft möguleika á að fara neitt yfir þau mál þó að fram hafi komið við þessa hröðu yfirferð nefndarinnar að svo muni verða.

Ég tek undir það, virðulegur forseti, með fyrri ræðumönnum að málið eigi að koma aftur til umfjöllunar í hv. sjútvn.